Lög félagsins

LÖG FYRIR FÉLAG ÍSLENSKRA LISTAMANNA Í SVIÐSLISTUM OG KVIKMYNDUM

Nafn og Heimili:

1.gr.

Nafn félagsins er Félag íslenskra listamanna í sviðslistum og kvikmyndum (FÍL) og er heimili þess og varnarþing í Reykjavík.

Félagið er hagsmuna-, fag- og stéttarfélag listamanna í sviðslistum og kvikmyndum á Íslandi og fer með fullt samningsumboð fyrir félagsmenn sína í kjarasamningum við atvinnuveitendur.

Tilgangur

2.gr.

Tilgangur félagsins er:

a)  Að efla starfsvettvang og starfsumhverfi innan sviðslista og kvikmynda á Íslandi.

b)  Að gæta hagsmuna félagsmanna, bæði sameiginlegra og einstaklingsbundinna á sem flestum sviðum, svo sem með því að semja um eða setja gjaldskrár um lágmarkskjör.

c)  Að stuðla að auknum fjárveitingum frá hinu opinbera sviðslista- og kvikmyndamála  og hafa áhrif á það hvernig þeim fjármunum er ráðstafað og skipt. Að stuðla að heilbrigðu og heiðarlegu starfsumhverfi innan sviðslista og kvikmynda. Að koma sjónarmiðum félagsins á framfæri opinberlega þegar lagasetningar eða reglugerðir vegna hagsmunamála er varða félagsmenn eru í umsagnarferli.  

d) Að koma fram fyrir hönd félagsmanna sinna gagnvart einstaklingum, sviðslistastofnunum, framleiðendum, félagasamtökum, opinberum aðilum og öðrum í öllum hagsmunamálum þeirra.

e) Að veita félagsmönnum aðstoð og hagnýta ráðgjöf í atvinnu- og kjaramálum og styðja þá eftir föngum til að ná fram rétti sínum sé á þá  hallað í þeim efnum.

f) Að eiga samskipti við erlend félög og samtök á sviði sviðslista og kvikmynda í því skyni að miðla frá þeim þekkingu, reynslu og áhrifum sviðslistum og kvikmyndagerð til heilla og félagsmönnum til gagns.

Starfssvið félagsins

3.gr.

Störf eftirtalinna falla undir starfssvið félagsins:

a)   Leikarar, dansarar, söngvarar, danshöfundar, leikmynda- og búningahöfundar og aðrir listamenn innan sviðslista og kvikmynda sem starfa á atvinnugrundvelli hérlendis skv. 6. grein.

b)   Kennsla og námskeiðahald félagsmanna í áðurnefndum listgreinum.

c)   Auglýsingagerð og aðrar greinar þar sem ofannefndar listgreinar koma við sögu eða eiga hlut að.

Félagsaðild

4.gr.

Skilyrði félagsaðildar eru þessi:

a)  Að umsækjandi sé íslenskur ríkisborgari eða eigi lögheimili hér á landi.

b) Að umsækjandi hafi lokið 3 ára BA námi í listgrein sinni og leggi fram vottorð þar að lútandi. Óperusöngvari skal hafa lokið 8. stigi í söng miðað við íslenskt menntakerfi, eða sambærilegu erlendu prófi og einnig haldið tvenna sjálfstæða einsöngstónleika. Hjá listdansara telst einungis það nám sem umsækjandi hefur stundað eftir 16 ára aldur. (ath 8. Stig)

5.gr.

Uppfylli umsækjandi ekki skilyrði um menntun  samkvæmt b) lið 4. gr., getur hann sótt um félagsaðild sé fullnægt neðangreindum skilyrðum:

a) Leikari hafi hann lokið 2ja ára leiklistarnámi og leikið 4 hlutverk, meðalstór eða stærri á síðastliðnum 5 árum.

b) Leikmynda / búningahöfundur hafi hann aðra myndlistar- eða hönnunarmenntun úr viðurkenndum listaskóla og unnið 3 verkefni á undangengnum 5 árum. En hafi hann ekki myndlistar-menntun þarf hann að hafa unnið 5 verkefni við leikmyndir og/eða búninga á síðustu 5 árum.

c) Óperusöngvari hafi hann stundað einkanám í söng og sungið a.m.k. 3 einsöngs-hlutverk, meðalstór eða stærri í viðurkenndri uppfærslu í óperu eða óratoríu, með hljómsveit eða kór á síðustu 5 árum.

d) Dansari/danshöfundurhafi hann lokið í það minnsta 2ja ára marktæku námi í listgrein sinni eftir 16 ára aldur og dansað í a.m.k. 3 dans - eða leiksýningum á undangengnum 7 árum eða verið danshöfundur í jafnmörgum sambærilegum sýningum.

Telji stjórn sérstaka ástæðu til þess að gera undantekningu á ofantöldu þá skal hún leggja umsóknina, studda veigamiklum rökum, fyrir trúnaðarmannaráð til samþykktar sbr. 44 gr.

Listnemar sem stunda viðurkennt háskólanám í leiklist, listdansi, óperusöng, leikmynda og búningahönnun eða öðru námi innan sviðslista og/eða kvikmynda sem tengist starfssviði félagsins  geta sótt um nemaaðild að FÍL. Nemar greiða ekki félagsgjöld og eru ekki fullgildir félagsmenn þ.e. fá ekki félagskort og geta ekki sótt um styrki en félaginu er skylt að gæta hagsmuna þeirra á starfssviði félagsins.  Þegar námi lýkur þarf nemi að endurnýja umsókn sína svo hún verði fullgild.

6. gr.

Það er skilyrði að þau verkefni, sem um ræðir í 5. gr., hafi verið unnin hjá viðurkenndu leikhúsi, sjónvarpi eða í kvikmynd. Það telst viðurkennt leikhús, sjónvarp eða kvikmynd þegar unnið er samkvæmt samningum FÍL og í samræmi við lög þess.

Réttindi og skyldur

7.gr.

Þegar stjórn félagsins hefur samþykkt inntökubeiðni umsækjanda telst hann fullgildur félagsmaður og öðlast með því öll þau réttindi og axlar allar þær skyldur, sem félagsaðildinni fylgja samkvæmt lögum þessum.

Á aðalfundi skal stjórnin bjóða nýja félagsmenn velkomna og tilkynna um fjölda félagsmanna.

8.gr.

Með félagsaðildinni undirgangast félagsmenn almennt, að félagið megi í kjarasamningum eða með öðrum viðlíka hætti semja um, breyta eða ráðstafa réttindum þeirra, sem talist geta einstaklingsbundin.

Þetta er heimilt að því marki, sem nauðsynlegt eða eðlilegt má telja og að því tilskyldu að jafnréttissjónarmiða sé gætt og sama gangi yfir alla þá félagsmenn sem líkt er ástatt um.

Þessi heimild er og háð því að slík ráðstöfun sé eðlilegur liður í samningum, sem heildstætt metnir fela í sér kjarabætur fyrir félagsmenn.

Jafngildir þetta almennu umboði til félagsins gagnvart viðsemjendum og þarf félagið því ekki að afla umboða frá hlutaðeigandi félagsmönnum vegna þessa í hverju tilviki.

9.gr.

Félagsmenn skulu taka virkan þátt í störfum og hagsmunabaráttu félagsins og ber þeim skylda til að taka að sér þau trúnaðarstörf og/eða verkefni á vegum þess, sem þeir eru kjörnir til að gegna eða þeim falið og vinna þau af samviskusemi og kostgæfni.

Félagsmönnum ber að vekja athygli stjórnar félagsins á þeim málefnum og atriðum, sem varða það og félagsmenn þess á þann veg að félaginu sé skylt, rétt eða eðlilegt að hafa afskipti af þeim.

Félagsmönnum er óheimilt að tjá sig á opinberum vettvangi í nafni félagsins og að nota nafn þess nema með sérstöku leyfi stjórnar þess.

10.gr.

Félagmönnum ber að greiða félagsgjöld til félagsins til að standa straum af starfsemi þess og rekstri:

a) Við inngöngu í félagið greiðir viðkomandi inntökugjald.

b)     Félagsgjald er innheimt mánaðarlega í gegnum launagreiðendur og/eða aðra innheimtuleið sem best er talin hverju sinni.

c)     Stjórn félagsins tekur ákvörðun um inntökugjald og félagsgjöld.  Ákvarðanir þessar skal stjórnin leggja fyrir aðalfund til staðfestingar.

d)     Félagsmenn sem hættir eru störfum sökum aldurs eða hafa náð 70 ára aldri geta sótt um undanþágu frá gjaldskyldu til stjórnar.

e)     Stjórn félagsins er heimilt að fella niður gjöld að öllu leyti eða hluta samkvæmt umsókn félagsmanns ef sérstakar ástæður, svo sem heilsuleysi, mæla með því.

f)     Greiði félagsmaður ekki gjaldfallin gjöld sín fyrir aðalfund félagsins hefur hann ekki rétt til fundarsetu. Sá félagsmaður sem ekki hefur greitt félagsgjöld í 2 ár glatar öllum félagsréttindum og telst hann ekki lengur félagi.

11. gr.

Óski fyrrum félagsmaður, sbr. 2. mgr., eftir að ganga í félagið að nýju skal veita honum inngöngu enda greiði hann að fullu upp eldri skuldir sínar.

12.gr.

Félagsmönnum er með öllu óheimilt að þiggja lægri laun eða annað endurgjald fyrir vinnu sína en nemur því lágmarki, sem félagið hefur samið um, samþykkt eða ákvarðað.

Þá er félagsmönnum skylt að hlíta öllum þeim ákvörðunum, sem samþykktar hafa verið í stjórn félagsins eða á fundum þess með lögmætum hætti.  Gildir það um kjara- og launamál og öll önnur hagsmunamál.

Félagsmanni ber að láta félaginu í té umbeðnar upplýsingar um ráðningarkjör sín, sem og ráðningarsamning ef óskað er, hafi stjórn félagsins rökstuddan grun um að samningar um lágmarkslaun séu ekki virtir eða að öðru leyti sé brotið á félagsmanni.

13.gr.

Félagið skal beita sér fyrir því að sjónvarp, útvarp, sviðslistastofnanir og kvikmyndaframleiðendur á atvinnugrundvelli stofni ekki til verkefna nema allir þeir sem með hlutverk fara séu félagsmenn.

Á sama hátt skal miða við að hönnun leikmynda og búninga sem og önnur störf sem falla undir starfsvið félagsins séu unnin af félagsmönnum.

Séu einstaklingar utan félagsins ráðnir til starfa þar sem kjarasamningur félagsins gildir skulu þeir taka laun samkvæmt ákvæðum hans og greiða til félagsgjöld félagsins fyrir þau réttindi sem kjarasamningurinn veitir. Með því leggjum við áherslu á að fólk utan félagsins sé ráðið til starfa á listrænum forsendum en ekki fjárhagslegum.

14.gr.

Úrsögn úr félaginu getur félagsmaður kunngert á félagsfundi, en ella skal úrsögn vera skrifleg og send skrifstofu þess með sannanlegum hætti.

15.gr.

Ef félagsmaður brýtur verulega eða ítrekað gegn ákvæðum laga þessara eða lögmætum ákvörðunum funda eða fyrirmælum stjórnar,  þá varðar það brottvikningu úr félaginu.

Stjórn félagsins tekur ákvörðun um brottvikningu og skal hún að jafnaði áður veita hinum brotlega áminningu og gefa honum kost á að bæta ráð sitt.  Ákvörðun stjórnar um brottvikningu skal borin upp á næsta aðalfundi, sem staðfestir hana eða hnekkir henni.

Deildir

16.gr.

Innan vébanda félagsins starfa nú eftirtaldar deildir:

  1. Deild leikara við Þjóðleikhús. ( Leikarafélag Íslands)
  2. Deild leikara við Leikfélag Reykjavíkur.
  3. Deild leikara við Leikfélag Akureyrar.
  4. Deild lausráðinna leikara og sjálfstætt starfandi sviðslistafólks.
  5. Deild leikmynda- og búningahöfunda.
  6. Deild óperusöngvara.
  7. Deild dansara og danshöfunda.
  8. Deild listnema.

Ef þörf krefur geta stjórn og trúnaðarmannaráð tekið ákvörðun um breytingar á deildaskipuninni og fjölgað eða fækkað deildum og krefst slík ákvörðun ekki breytinga á lögum þessum, en bera skal hana undir næsta aðalfund til staðfestu.

Til hverrar deildar teljast þeir félagsmenn, sem starfað hafa eða fyrirsjáanlega munu starfa á sviði deildarinnar á yfirstandandi leikári.

Hlutaðeigandi  er frjálst að velja á milli deilda eða vera í tveimur deildum á sama tíma.

17.gr.

Ársfund skal halda í hverri deild að hausti ár hvert eða fyrir aðalfund og skal þar kjörin stjórn deildarinnar til eins árs í senn. 

Deildarstjórn skal skipuð 3 einstaklingum,  formanni, ritara, meðstjórnanda, og einum varamanni sem kjósa skal hvern fyrir sig.

Verði stjórnarmaður ófær um að gegna störfum skal varamaður taka við. Sama gildir ef stjórnarmaður tekst á hendur einhvern þann starfa, sem  haft getur í för með sér árekstur við hagsmuni deildarinnar.

18.gr.

Deildarstjórnir fara með kjara- og atvinnumál viðkomandi deildar ásamt stjórn félagsins, svo og önnur þau mál sem talist geta sérmál deildarinnar.

Kjarasamningar deilda skulu bornir upp til samþykktar á deildarfundi en á félagsfundi varði samningurinn félagsmenn úr fleiri en einni deild.

Um ákvarðanir varðandi vinnustöðvanir félagsmanna í því skyni að knýja á um kjarabætur í vinnudeilum í samræmi við reglur vinnulöggjafarinnar fer skv lögum um stéttarfélög og vinnudeilur, kafli II, greinar 14 – 19.

Til að ákvörðun um vinnustöðvun sé lögmæt þarf tillaga þess efnis að hljóta samþykki a.m.k. 3/4 hluta greiddra atkvæða á fundi, sem er löglega boðaður og haldinn samkvæmt fyrimælum þessarar greinar. 

Deildarfundir eru haldnir eftir ákvörðun deildarstjórnar en skylt er stjórninni að boða til fundar ef 1/3 hluti deildarmanna krefst þess skriflega og tilgreinir fundarefni.

19.gr.

Deildarfundi skal boða tryggilega með a.m.k. 2ja daga fyrirvara.

Á deildarfundum ræður afl atkvæða úrslitum.

Deildarfundum stjórnar formaður deildar.

20.gr.

Í fundargerð skal skrá stutta skýrslu um það sem gerist á deildarfundum, einkum allar fundarsamþykktir. Sama á við um stjórnarfundi deilda.

Félagsstjórn

21.gr.

Stjórn félagsins er kjörin á aðalfundi og skipa hana 5 aðalmenn, nánar tiltekið: formaður, varaformaður, ritari, gjaldkeri  og meðstjórnandi. Stjórnarmenn skal kjósa sérstaklega til hvers embættis og skulu þeir kosnir hver fyrir sig.

Kjörtímabil stjórnar er 3 ár.

Á aðalfundi skal ennfremur kjósa 3 menn sem varastjórnarmenn og er kjörtímabil þeirra 3 ár.  Skulu þeir kjörnir sem 1., 2. og 3. varamaður og taka þeir sæti í aðalstjórn í þeirri röð.  Varamenn eiga rétt til setu á stjórnarfundum.

Stjórnarmenn ganga úr stjórn til skiptis þannig:

a)   Formaður og þrír varamenn eitt árið.

b)   Ritari og meðstjórnandi þriðja árið.

c)   Varaformaður og gjaldkeri þriðja árið.

Ef stjórnarmaður fellur frá, telst vanhæfur eða hættir stjórnarstörfum af einhverjum ástæðum, tekur varamaður sæti hans fram að næsta aðalfundi.  Takist stjórnarmaður hinsvegar á hendur einhvern þann starfa um stundarsakir, sem samrýmist ekki hagsmunum félagsins, skal hann víkja úr stjórninni og varamaður taka sæti hans.

22.gr.

Stjórn félagsins ræður málefnum þess með þeim takmörkunum, sem lög þessi setja.  Hún fer með öll málefni félagsins milli funda og tekur ákvarðanir um þær í samræmi við hagsmuni og tilgang félagsins.

Hún skal hafa vakandi auga með öllum málum, sem á baugi eru og varða hagsmuni félagsins, félagsmanna, sviðslista og kvikmyndagerðar í landinu.  Þá skal hún annast daglegan rekstur félagsins og öll sameiginleg mál þess og einnig  skal hún fylgjast með starfi deilda og veita þeim stuðning eftir því sem þörf er á.

Stjórn félagsins tilnefnir fulltrúa félagsins í allar stjórnir, nefndir og ráð, sem félagið á samkvæmt lögum, venjum eða samningum, rétt á að tilnefna í.

23.gr.

Formaður kemur fram fyrir hönd félagsins út á við og undirritar kjarasamninga félagsins og samninga einstakra deilda ásamt formönnum deildanna.

Stjórn félagsins skuldbindur það gagnvart öðrum aðilum og er undirskrift formanns og eins stjórnarmanns nægileg til þess.

Stjórn félagsins ber í heild ábyrgð á eignum félagsins og fjárreiðum og skal hún ráðstafa og ávaxta fjármuni þess í samræmi við tilgang þess og ákvarðanir aðalfundar.  Skal hún jafnan leita tryggustu og hagkvæmustu kosta og leiða til varðveislu og ávöxtunar á fjármunum félagsins.

24.gr.

Formaður kveður stjórnina saman og stýrir fundum hennar. Skal boða fund með hæfilegum fyrirvara og er tveggja daga fyrirvari jafnan nægilegur.  Sé stjórnarmaður forfallaður skal boða varamann á fund í hans stað.

Jafnan skal ef þess er kostur upplýsa stjórnarmenn um það fyrirfram hvaða málefni verða tekin fyrir.

Stjórnin er ákvörðunarhæf þegar meirihluti stjórnarmanna er á fundi, sem boðaður hefur verið á fullnægjandi hátt.

25.gr.

Á stjórnarfundum er málum ráðið til lykta með einföldum meirihluta atkvæða.  Falli atkvæði jöfn ræður atkvæði formanns úrslitum.

Stjórnin skal færa í fundargerð meginatriði þess, sem gert er og ákveðið á stjórnarfundum og skal fundargerð send stjórnarmönnum rafrænt til samþykktar að fundi loknum.

Stjórnarmaður má ekki taka þátt í afgreiðslu mála, þar sem hann hefur sérstakra persónulegra eða

fjárhagslegra hagsmuna að gæta í.

26.gr.

Stjórn félagsins skal sjá um að bókhald þess sé fært og haldið á réttan og fullnægjandi hátt.

Skulu með venjulegum hættir færðir glöggir efnahags- og rekstrarreikningar.  Reikningsár félagsins er almanaksárið.

Stjórn félagsins skal sjá um að reikningar þess séu yfirfarnir í tíma, sbr. 27. gr.

27.gr.

Tveir skoðunarmenn skulu yfirfara reikninga félagsins fyrir liðið reikningsár.

Skoðunarmenn skulu kosnir á aðalfundi til eins árs í senn, annar skal vera úr hópi félagsmanna en hinn skal vera utan félags og hafa viðskiptafræðimenntun.  Fyrir þann fyrrnefnda skal kjörinn varamaður.

Skoðunarmenn skulu hafa aðgang að öllu bókhaldi félagsins og geta þeir krafist af stjórn og starfsmönnum allra þeirra upplýsinga, sem þeir álíta að hafi þýðingu fyrir starfa sinn.

Yfirfarnir ársreikningar félagsins skulu áritaðir af skoðunarmönnum og skulu þeir liggja frammi á skrifstofu félagsins í a.m.k. 5 daga fyrir aðalfund til athugunar fyrir félagsmenn.

28.gr.

Stjórn félagsins er heimilt að ráða sérstakan framkvæmdastjóra til starfa í þágu þess, svo og annað starfsfólk sér til aðstoðar við daglegan rekstur félagsins.

Stjórnin ákveður þá verksvið þessara starfsmanna, laun þeirra og önnur kjör, auk þess sem hún hefur yfirumsjón með starfi þeirra.

Stjórnin segir þeim starfsmönnum upp sem hún ræður. Stjórn félagsins getur veitt framkvæmdastjóra heimild til að skuldbinda félagið fjárhagslega til alls er lýtur að daglegum rekstri þess.

Stjórn og starfsmönnum félagsins er skylt að veita félagsmönnum eðlilegar upplýsingar um málefni og starfsemi félagsins.

Trúnaðarmannaráð

29.gr.

Í trúnaðarmannaráði félagsins eiga sæti stjórnarmenn og formenn deildastjórna .

Trúnaðarmannaráð skal koma saman minnst 2 sinnum á ári og ráðið skal sjálft setja sér reglur þar að lútandi.  Aukafundi skal halda eftir ákvörðun formanns  eða félagsstjórnar og einnig ef 3 fulltrúar eða fleiri krefjast þess og tilgreina tilefni.

Geti deildarformaður ekki sótt fundi skal hann tilnefna varamann í sinn stað.  Sé deildarformaður jafnframt stjórnarmaður og eigi sem slíkur setu í ráðinu, skal hann sömuleiðis tilnefna fulltrúa í sinn stað úr röðum deildarmanna.

30.gr.

Formaður félagsins er jafnframt formaður trúnaðarmannaráðs og stjórnar fundum þess og boðar til þeirra.  Gilda um boðun funda og upplýsingar um fundarefni sömu reglur og gilda um stjórnarfundi eftir því sem við á.

Trúnaðarmannaráðsfundur er lögmætur ef 2/3 hlutar fulltrúa eru mættir.

31.gr.

Trúnaðarmannaráð skal fjalla um kjarasamninga og önnur þýðingarmikil hagsmunamál félagsins. 

32.gr.

Á fundum trúnaðarmannaráðs er málum ella ráðið til lykta með afli atkvæða.  Falli atkvæði jöfn ræður atkvæði formanns.

Rita skal fundargerð um það sem fram fer og ákveðið er á trúnaðarmannaráðsfundum.  Fundargerðina skal senda rafrænt eftir fund og síðan bera hana upp til samþykktar á næsta fundi þar á eftir.

Félagsfundir

33.gr.

Æðsta vald í málefnum félagsins er í höndum aðalfundar þess.

Rétt til fundarsetu, málfrelsi, atkvæðarétt og kjörgengi, hafa allir félagsmenn, sem eru skuldlausir við félagið.

Þá má félagsmaður ef lögmæt forföll banna veita öðrum félagsmanni, sbr. 2. mgr., umboð til að mæta fyrir sína hönd og greiða atkvæði.  Félagsmaður sem fjarstaddur er vegna vinnu eða veikinda er löglega forfallaður og skal tilgreint í umboði um ástæður fjarvistar.

Skal umboðsmaður leggja fram umboð sitt á fundinum og skal það vera skriflegt og dagsett.  Slíkt umboð er afturkallanlegt hvenær sem er.

Stjórnarmenn og aðrir sem trúnaðarstörfum gegna fyrir félagið og framkvæmdastjóri þess eru skyldir til að mæta á aðalfundi nema þeir hafi lögmæt forföll.

Þá er endurskoðanda og lögmanni félagsins heimilt að sækja fundi og taka til máls og gefa skýringar.  Loks getur stjórnin boðið sérstökum gestum að sitja fundi og flytja þar erindi og ávörp.

34.gr.

Aðalfundur félagsins skal haldinn árlega á reglubundnum starfstíma leikhúsanna, að vori eða hausti.

Til aðalfundar skal stjórnin boða með skriflegri tilkynningu, fundarboði, sent með tölvupósti til félagsmanna og tilkynnt á heimasíðu félagsins, að minnsta kosti 10 dögum fyrir fundinn.

Ber félagsmanni að tilkynna skrifstofu félagsins breytt netfang sitt fyrir 15. september ár hvert, að öðrum kosti telst fundarboð réttilega sent samkvæmt skrá félagsins.

Í fundarboði skal greina fundartíma, fundarstað og dagskrá.  Þá skal geta þeirra mála sem ræða á og meginefni þeirra tillagna, sem leggja á fyrir fundinn.  Sérstaklega skal geta þess ef tillaga til lagabreytinga verður tekin fyrir.

Aðalfundur er löglegur ef löglega er til hans boðað.

35.gr.

Vilji félagsmaður fá mál tekið fyrir og til atkvæðagreiðslu  á aðalfundi skal hann greina stjórn frá því skriflega þannig að unnt sé að geta þeirra í fundarboði.

Annars getur hver félagsmaður skotið þeim ákvörðunum stjórnar, sem honum viðkoma til aðalfundar og á hann rétt á því að þau séu tekin til umræðu, en ekki til atkvæðagreiðslu nema þess hafi verið getið í fundarboði.

Hyggist félagsmaður bjóða sig fram til stjórnar eða varastjórnar, skal hann tilkynna það skriflega til skrifstofu félagsins að minnsta kosti tveimur virkum dögum fyrir aðalfundinn.

36.gr.

Á aðalfundi skulu þessi mál tekin fyrir:

a) Stjórn félagsins gerir grein fyrir starfsemi félagsins frá  síðasta aðalfundi og hag þess síðasta reikningsár

b) Skýrslur deildarstjórna og nefnda félagsins, sem má þó flytja sem hluta af skýrslu stjórnar.

c) Umræður um skýrslu/skýrslur samkvæmt a) og b) lið.

d) Stjórn leggur fram og skýrir endurskoðaða ársreikninga félagsins og ber þá að loknum umræðum upp til samþykktar.

e) Stjórnin gerir grein fyrir ákvörðun sinni um félagsgjald og ber hana upp til staðfestingar.

f) Kynning nýrra félagsmanna.

g) Stjórnin ber upp til staðfestingar ákvarðanir sínar um brottvikningu félagsmanna.

h) Kosning stjórnar og varastjórnar.

i)  Kosning tveggja skoðunarmanna reikning og eins til vara úr hópi félagsmanna.

j)  Kosning í nefndir félagsins

k)  Mál, sem tiltekin eru í fundarboði, þ.á m. tillögur til breytinga á lögum félagsins.

l) Önnur mál.

37. gr.

Almenna fundi í félaginu skal halda:

a) Þegar stjórnin telur það nauðsynlegt eða æskilegt.

b) Þegar þess er skriflega krafist af 10 félagsmönnum hið fæsta og skulu þeir í kröfu sinni tilgreina þau málefni, sem óskast rædd og tekin fyrir og afgreidd.

c) Þá skal enn fremur halda fund í samræmi við ákvörðun fyrri fundar.

Á almennum félagsfundum skal fjalla um þau mál, sem tiltekin eru í fundarboði.

Um boðun almennra félagsfunda og um fundarhaldið yfirleitt gilda sömu reglur og um aðalfundi samkvæmt ákvæðum laga þessara.  Stjórn félagsins er heimilt að boða til félagsfunda með tölvupósti og tilkynningu á vefsvæði félagsins með viku fyrirvara.

Sinni stjórnin ekki kröfu um fund samkvæmt b) lið 1. mgr., þ.e. hafi ekki boðað til hans innan viku, er hlutaðeigandi félagsmönnum heimilt að boða sjálfir til fundarins og halda hann og telst hann þá löglegur að öðrum skilyrðum laga þessara fullnægðum.

38.gr.

Á öllum fundum félagsins, bæði aðalfundi og almennum félagsfundum, ræður afl atkvæða úrslitum nema annars sé sérstaklega getið í lögum þessum.

Atkvæðagreiðsla fer fram eftir því sem fundarstjóri kveður nánar á um.  Þó skal skrifleg atkvæðagreiðsla fara fram ef einhver félagsmanna krefst þess.

39.gr.

Aðalfundi og öðrum fundum félagsins stjórnar sérstakur fundarstjóri, sem stjórn félagsins hefur kosið til þess.  Má stjórnin velja til þess utanfélagsmann ef það þykir æskilegt.  Stjórnin ákveður jafnframt hver skuli vera ritari fundarins.

Formaður félagsins setur fundi og kynnir ákvörðun stjórnar um fundarstjóra og fundarritara.

Fundarstjóri rannsakar í fundarbyrjun, hvort löglega hafi verið til fundarins boðað og lýsir því síðan hvort svo sé.  Hann rannsakar einnig lögmæti framlagðra umboða og úrskurðar um þau og jafnframt um öll önnur atriði, sem varða framkvæmd fundarins í samræmi við viðtekin og almenn fundarsköp.

40.gr.

Undir umsjá og á ábyrgð fundarstjóra skal rita fundargerð meginatriði allra mála, sem tekin eru fyrir á fundum félagsins og allar samþykktir sem gerðar eru og ákvarðanir sem teknar eru og hvernig kjör fóru og atkvæði hafa fallið.

Skal fundarstjóri, fundarritari og sérstakur trúnaðarmaður, sem fundurinn hefur kosið til þess, ganga frá endanlegri fundargerð, leiðrétta hana og gera athugasemdir ef þurfa þykir, og undirrita hana innan 14 daga frá fundi.

Þessi fundarskýrsla skal vera sönnun þess, sem fram hefur farið á fundinum og send félagsmönnum rafrænt eigi síðar en tveimur vikum eftir fundinn.

Telji félagsmaður að skýrslan sé röng eða villandi getur hann sent skrifstofu félagsins skriflega og rökstudda kröfu um leiðréttingu og skulu ofangreindir embættismenn fundarins verða við slíkri kröfu ef hún er á rökum reist.

Nefndir félagsins

41.gr.

Innan félagsins skulu starfa eftirtaldar fastanefndir:

a) Kjörnefnd.

b) Laganefnd

c) Kjaranefnd

d) Orlofsnefnd

Hver ofangreindra nefnda skipuð þremur félagsmönnum, sem kosnir skulu á aðalfundi til tveggja ára í senn og skal einn þeirra kjörinn sem formaður.  Jafnframt skal kjörinn einn maður til vara í hverja þeirra. Orlofsnefnd skal skipuð þremur félagsmönnum og einum varamanni  og skulu þeir kjörnir á aðalfundi til þriggja ára.

42.gr.

Nefndir þessar starfa hver á sínu sviði, sbr. 43. gr. - 45. gr., en stjórnin úrskurðar ef vafi rís um verksvið.

Nefndirnar vinna sjálfstætt að þeim hagsmunamálum og verkefnum, sem þeim eru falin í lögum þessum eða af fundum félagsins eða stjórn þess.

Skulu nefndirnar vera stjórn til aðstoðar og ráðgjafar og getur stjórnin vísað málum til þeirra.

Stjórnin hefur þó jafnan úrslitavald um það, sem félagið lætur frá sér fara út á við um viðkomandi mál eða málefni.

43.gr.

Kjörnefnd annast undirbúning að kjöri stjórnar og í nefndir og önnur þau trúnaðarstörf á vegum félagsins, sem kosið er í.  Nefndin skal leita eftir framboðum félagsmanna og tryggja að  embætti og trúnaðarstörf verði ávallt mönnuð.

Kjörnefndin skal leggja tillögur sínar um skipan embætta og nefnda fyrir aðalfund og skal þeirra getið í fundarboði, sbr.  34. gr.

44.gr.

Laganefnd skal yfirfara lög félagsins og gera tillögu að breytinum á þeim fyrir stjórn.

45.gr.

Kjaranefnd fjallar um starfskjör sjálfstætt starfandi listamanna og þá einna helst í þeim tilfellum sem engin kjarasamningur er til staðar. Kjaranefnd skal í samráði við stjórn félagsins og trúnaðarmannaráð, setja fram lágmarksviðmið um þau verkefni á starfssviði félagsins þar sem ekki er fyrir hendi samningur um lágmarkskjör.

46. gr.

Orlofsnefnd skal hafa yfirumsjón með orlofsmálum FÍL hvað varðar ráðstöfun þess fjár sem fékkst við sölu olofshúss FÍL.

Heiðursfélagar

47. gr.

Heimilt er félaginu að kjósa heiðursfélaga úr hópi félagsmanna og einnig þeirra sem ekki eru fyrir í félaginu og skal kjör þeirra fara fram á aðalfundi.

Stjórn félagsins hefur ein rétt til að bera fram tillögu á aðalfundi um kjör heiðursfélaga og er það skilyrði að stjórnin standi einhuga að þeirri tillögu.

Áður en stjórnin kynnir slíka tillögu og kunngerir í fundarboði skal hún tilkynna viðkomandi um það og má því aðeins flytja tillöguna að hann fallist fyrirfram á að taka kjöri.

Heiðursfélagar njóta allra félagsréttinda en eru undanþegnir öllum starfsskyldum og þeim ber ekki að greiða nein gjöld til félagsins.

Innlend og erlend samskipti

48.gr.

Í samræmi við tilgang sinn skal félagið taka virkan  þátt í öllum þeim samtökum, félögum, stofnunum, ráðum og nefndum, sem með einum eða öðrum hætti geta komið félaginu, félagsmönnum og hagsmunamálum þeirra að gagni í bráð eða lengd.  Gildir það bæði um samskipti og samstarf við innlenda og erlenda aðila.

Skal félagið ávallt halda uppi sem nánustu samskiptum  og samstarfi við erlend systurfélög og sambönd þeirra, ekki síst hliðstæð félög á öðrum Norðurlöndum.

Lagabreytingar

49. gr.

Lögum þessum má aðeins breyta á aðalfundi ( framhaldsaðalfundi) félagsins.

Til breytinga á lögunum þarf meirihluta atkvæða fundarmanna.

Breytingartillögur verða að berast stjórn félagsins a.m.k. tveimur vikum fyrir aðalfund.

Í fundarboði aðalfundar (framhaldsaðalfundar) skal það kynnt sérstaklega ef tillögur til lagabreytinga verða teknar fyrir á fundinum.

Slit félagsins

50. gr.

Tillaga um að félaginu skuli slitið og það lagt niður má aðeins bera upp og taka til afgreiðslu á lögmætum aðalfundi þess.

Slík tillaga verður ekki borin upp nema hún hafi verið lögð fram skriflega ásamt rökstuðningi á skrifstofu félagsins fyrir 1. dag janúarmánaðar.

Þá er það jafnframt skilyrði þess, að slík tillaga verði tekin til meðferðar að hennar hafi verið rækilega getið í fundarboði aðalfundarins.

Til að aðalfundurinn geti fjallað um tillögu um félagsslit þurfa að minnsta kosti 2/3 hlutar félagsmanna að vera mættir á fundinum.

Sé fundurinn það vel  sóttur og hljóti tillagan um að slíta félaginu samþykki 3/4 hluta greiddra atkvæða, þá telst hún samþykkt en að öðrum kosti fellur hún.

Nái slík tillaga fram að ganga skulu eignir félagsins renna til einhvers þess félags eða stofnunar, sem hefur líkt starf með höndum og þetta félag eða til stofnunar sjóðs til eflingar sviðslista í landinu og skal ákvörðun hér að lútandi tekin á sama fundi.

Gildistaka

51. gr.

Lög þessi öðlast gildi við lok þess aðalfundar, sem samþykkir þau í samræmi við fyrirmæli áður gildandi laga.

Þannig samþykkt á aðalfundi félagsins þann 19. mars 2024)