
Opið bréf til stjórnar Leikfélags Reykjavíkur og borgarstjóra
Þar sem þið hafið öll afþakkað boð okkar og leikara LR, að mæta til fundar, þá viljum við senda ykkur hér nokkrar línur.
Erindi Leikfélags Reykjavíkur og framlag Reykjavíkurborgar
Leikfélag Reykjavíkur var stofnað árið 1897 af framsýnu fólki með ástríðu fyrir leiklistinni. Fyrstu árin fékk enginn greitt. Listafólkið framfleytti sér með öðrum störfum að deginum, en æfðu leikverk og sýndu á kvöldin í Iðnó. Fljótlega ákvað ríkisstjórnin að styrkja starfsemina gegn því að álíka framlag kæmi frá Reykjavíkurborg og listamenn fóru að fá greitt. Eftir því sem árin liðu óx Leikfélagið og varð að atvinnuleikhúsi þar sem listamenn fengu laun fyrir sín störf.
Fyrsti kjarasamningur LR var við FÍL vegna leikara. Hann var gerður árið 1964 og lengi vel var öll önnur launasetning hjá Leikfélaginu miðuð út frá þeim samningi. Það var óhugsandi að setja starfsfólk á skrifstofu, tæknifólk eða aðra starfsmenn á hærri laun en dáðustu listamenn hússins. Leikhúsið var rekið með jafnaðarhugsjón og í þágu listarinnar. Á þessum tíma var framlag borgarinnar einnig miðað við fjölda leikara í starfi. Ef samdist um að framlag borgarinnar ætti að ná yfir laun 20 leikara þá var LR heimilt að ráða einnig í 20 önnur stöðugildi. Laun leikhússtjóra voru einum launaflokki hærri en hæstu leikaralaunin.
Launaþróun og leyndarhyggja
LR flytur í Borgarleikhúsið árið 1989. Eftir nokkra áratugi í nýju leikhúsi var ásýnd LR uppfærð. Síðan þá hefur verið talað um Borgarleikhúsið. Líklega urðu fleiri breytingar á þessum tíma sem ekki voru jafn sýnilegar og hinar ímyndarlegu breytingar. Launaleynd LR gerir ómögulegt að skoða á hvaða tímabili það gerist að laun leikara hætta að vera viðmið í launastrúktur hússins og ákveðinn hluti starfsmanna fer á markaðslaun. Í kjaraviðræðum FÍL og LR á undanförnum árum hefur ítrekað verið óskað eftir upplýsingum um laun annarra starfshópa í húsinu án árangurs. Þeirri neitun hefur fylgt sú fullyrðing að það sé ákvörðun og lífsstíll að vinna í leikhúsi og allir á lágum launum. Í yfirstandandi viðræðum hefur verið sama viðkvæðið – óskum FÍL um launaupplýsingar var neitað. En þrátt fyrir einarða neitun samninganefndar Leikfélagsins - þá fékk FÍL í tvígang á nýliðnu hausti- sendingu frá Borgarleikhúsinu sem innihélt upplýsingar um laun allra starfsmanna leikhússins. Voru það mistök starfsmanns eða hreinlega guðleg íhlutun? Þegar gögnin voru rýnd þá var leyndarhyggjan skiljanleg. Hjarta Borgarleikhússins slær á skrifstofunni – í það minnsta launalega.
Hópur lykilstarfsmanna á skrifstofu Borgarleikhússins er sannarlega á góðum launum og það er ánægjulegt að stjórn LR meti þá starfsmenn að verðleikum. En hvað þá með listamennina sem skapa verðmætin? Kæmi einhver í Borgarleikhúsið ef ekki væru leikarar á sviðinu? Hefur mikilvægi leiklistar í Borgarleikhúsinu vikið fyrir millistjórnendum á skrifstofunni?
Samningar við Reykjavíkurborg – stefnur og ábyrgð stjórnmálamanna
Samningur Reykjavíkurborgar og LR kveður á um að LR sé skylt að kynna sér og fara eftir t.d. mannréttinda og jafnréttisáætlunum Reykjavíkurborgar. Nú er borgaryfirvöldum kunnugt um að ákveðnir hópar listamanna, sem hérlendis eru að mestu konur, hafa átt erfitt uppdráttar hjá LR hvað varðar laun og réttindi. Þetta hefur ítrekað verið ávarpað á samráðsfundum með borgarstjóra. Dönsurum og danshöfundum bjóðast umtalsvert rýrari kjör en öðrum listamönnum. Hvernig fellur það inn í stefnu borgarinnar að þessar kvennastéttir séu undirsettar hjá LR og hvernig er eftirlitsskyldu Reykjavíkurborgar háttað varðandi starfsemi LR og settar stefnur?
FÍL hefur ítrekað bent á að með framlagi Reykjavíkurborgar væri æskilegt að setja auknar kvaðir. Í samningi ætti að vera áskilnaður um lágmarksfjölda starfandi listamanna út frá upphæð framlags. Það er ekki óalgeng regla í þeim löndum sem við berum okkur saman við. Í vetur eru 19 - 20 leikarar starfandi hjá LR en í september voru um 140 aðrir starfsmenn á launum. Vissulega margir í hlutastörfum en er þetta hlutfall eðlilegt? Er búið að úthýsa listamönnum úr leikhúsinu?
Kjarnastarfið og kjarnastarfsmenn
Samkvæmt samþykktum LR er markmið félagsins og tilgangur ”að vekja áhuga á góðri leiklist og sýna sjónleiki í Reykjavík”.Þegar við rýndum í launagögn LR voru fyrstu viðbrögð okkar á þann veg að við gætum ekki sýnt leikurum þetta. Munurinn var þeim svo óvilhallur, virðingarleysið svo botnlaust. Við ákváðum því að upplýsa fyrst samninganefnd LR og gefa þeim tækifæri til að bregðast hratt við. Leiðrétta þetta óréttlæti og stoppa þessa óheillaþróun. En það fór ekki svo og voru leikarar þá upplýstir. Fyrir LR hefur verið mikilvægara að finna út hvernig FÍL fékk gögnin í stað þess að bregðast við því sem gögnin sýna. Það er sorgleg staðreynd.
Áskorun til stjórnar LR og borgaryfirvalda – Standið undir ábyrgðinni sem þið hafið sóst eftir. Listamenn leikhússins eiga það skilið.
Hlýjar kveðjur f.h. FÍL
Birna Hafstein formaður
Hrafnhildur Theodórsdóttir framkvæmdastjóri