Listahátíð 2020 – kallað eftir hugmyndum!

„HEIMAR“ Á LISTAHÁTÍÐ Í REYKJAVÍK 2020

Þemað að þessu sinni verður HEIMAR og er nokkurs konar systurþema hátíðarinnar 2018 sem var Heima.  Þemað, sem er marglaga í einfaldleika sínum, er opið til túlkunar og kemur til með að eiga sér ótal birtingamyndir í dagskrá hátíðarinnar.

Listahátíð fagnar 50 ára afmæli sínu á næsta ári.  Því er viðeigandi að dagskrá hennar kallist að einhverju leyti á við heima mismunandi tíma og endurspegli eða vísi í sögu hátíðarinnar. Hátíðin 2020 verður þannig lifandi og vonandi ferskt samtal við fyrri hátíðir um leið og hún stígur af öryggi, en þó leitandi, inn í óljósa framtíð.

Listahátíð hefur frá upphafi verið gátt milli íslensks menningarlífs og annarra menningarheima. Á tímum vaxandi þjóðernishyggju, er mikilvægara en nokkru sinni að leyfa þessari gátt að standa galopinni um leið og horfst er í augu við krefjandi siðferðisspurningar um þau neikvæðu áhrif sem ferðalög og neysla eru að hafa á umhverfi okkar.

Heimarnir eru óteljandi. Listir, tækni og vísindi takast á og opna margslunginn, risavaxinn veruleika upp á gátt, svo ofboðslegan að við neyðumst til að minnka hann niður í litla heima. Heiminn minn, hvers og eins. Enginn heimur stendur þó stakur heldur er til í stöðugu samtali og togi við aðra heima; annan skilning - önnur lögmál.

---

Öllu listafólki er frjálst að senda inn hugmyndir fyrir hátíðina og tekið er á móti hugmyndum á hvaða vinnslustigi sem er. Stærri og fjárfrekari verkefni þurfa þó að vera komin áleiðis með fjármögnun til þess að koma til álita.

Á Listahátíð er sérstök áhersla lögð á nýsköpun og verkefni þar sem ólíkar listgreinar skarast. Þá er leitað eftir fjölskylduvænum viðburðum, viðburðum sem fara fram utan höfuðborgarsvæðisins og verkefnum í almenningsrými sem teygja sig út fyrir hefðbundið umhverfi lista og/eða eru sérstaklega hugsuð fyrir þjóðfélagshópa sem alla jafna sækja ekki listviðburði.

 

Tillögur skulu sendar inn með því að fylla út rafrænt eyðublað HÉR.

Skilafrestur er til miðnættis miðvikudagsins 6. maí 2019