Alþjóðlegur dagur leiklistar 27. mars – Ávörp

Ávarp á Alþjóðlega leiklistardeginum 27. mars 2021.

Elísabet Jökulsdóttir

 

Amma, viltu hlusta á dansinn.

Það er leikhúsið.

Leikurinn er eldri en siðmenningin.

Ljónið og býflugan hafa leikið sér lengur en við.

Það gerir leikinn að uppsprettu lífsins.

*

Úr hverju er leikhús búið til.

Úr þögninni og myrkrinu.

Úr þögninni rétt áðuren tjaldið er dregið frá.

Úr myrkrinu sem við bíðum í áðuren tjaldið er dregið frá.

Leikhúsið er tjaldið.

Einu sinni var barn sem bjó í tjaldi. Barnið kveikti ljós í tjaldinu og það flögruðu fiðrildi kringum tjaldið og einhver lék á spiladós og þá var komin hljómsveit.

Til að halda sér inní tjaldinu þurfti barnið að segja Mundu töfrana.

Svo barnið sagði Mundu töfrana alveg stanslaust.

Og þá kom lírukassaleikari, bróðirinn kom, töfradrottningin kom og skrímslið, allt útaf því að barnið sagði Mundu töfrana. Og það féllu niður snjókorn meðan lírukassaleikarinn lék, lugtirnar skinu skært og skrímslið ætlaði að eyðileggja allt en þá sagði barnið Mundu töfrana og skrímslið sagðist vera raunveruleikinn og sagðist liggja á tári og tárið titraði og þá mundi barnið eftir því að sorgin hafði bankað uppá og nú voru allir að gefa því tár svo það gæti grátið - og til þess var allt þetta vesen, allt þetta leikhús, tilað leysa gátuna um fegurðina, töfrana, og lírukassaleikarann.

 

Leikhús er búið til persónu A og persónu B. Persóna B horfir á persónu A ganga yfir sviðið og þetta heitir leikhús, að því tilskildu að persóna A sé þess meðvituð um að persóna B sé að horfa á hana.

 

Leikhús er skvaldrið. Skvaldrið áðuren tjaldið er dregið frá, brakið í nammibréfunum, jafnvel hringingar í farsímum. Næst skaltu hlusta á skvaldrið í áhorfendum sem  snarþagnar þegar myrkrið skellur á.

 

Ég talaði við áhorfanda og hún sagði: Pabbi og mamma voru verkafólk en sáu alltaf til þess að við fórum í leikhúsið. Og hvað er leikhús spurði ég. Og hún svaraði. “Ég veit það ekki, ... það var annar heimur, ... leikritið.”

 

Ég talaði við leikara; leikhúsið er andardráttur, hreyfing, ryþmi, texti, sagði ein, annar var að undirbúa sýningu með vændiskonum og heimilislausu fólki, þriðja sagði að í leikhúsinu mætti sýna réttarhöld, sálfræðivinnu, partavinnu, leikhúsið væri heimili tilfinninganna.

 

Ég talaði við leikhúsið; frá Japan, Rússlandi, Eþíópíu, Kólombíu, Líbanon ...

 

Á sínum tíma varð ég hrædd við leikhúsið því mér fannst leikhúsið eiga meira í pabba mínum en mér. Og þá varð ég hrædd við að fara inní leikhúsið, en ég var líka hrædd um að hafa ekkert að segja í leikhúsinu.

 

Ég sópaði einu sinni gólfið í leikhúsi og fæ vatn í munninn við tilhugsunina.

 

Og þegar ég sá leikara á sviði taka í höndina á áhorfenda í sal, handaband á milli leikara og áhorfenda. Persóna A tekur í höndina á persónu B. Passar það inní formúluna?

 

En ég skal segja þér hvað leikhús er. Trúnaður. Trúnaður á milli A og B.

 

Trúnaður í hjarta lítillar stúlku.

 

Leikhúsið er í hjartanu, maganum, hryggsúlunni, leikhúsið er í hryggsúlunni og auðvitað blóðinu.

 

Ég er með leikhúsið í blóðinu, ég ólst uppí leikhúsi og á efri hæðinni var hún Kristín sem eldaði matinn handa leikurunum, hjá henni fékk ég andabrauð þegar ég varð þreytt á að horfa á æfingar, hverja æfinguna á fætur annarri og leikararnir voru svo góðir, alltaf að faðma mig og brosa til mín. Og leikstjórinn sagði Tökum þetta aftur. Hljóð í salnum. Og ég sat stillt og prúð í sætinu mínu. Það var gaman að labba um í leikmyndinni í pásu. Ég horfði á sömu æfinguna aftur og aftur, alveg einsog ég horfði á Hamlet aftur og aftur þegar ég fékk að fylgjast með æfingum mörgum árum seinna.

Aftur og aftur því ekkert gerist aftur.

 

Og þessvegna hljómar það aftur:

 

Amma, viltu hlusta á dansinn.

 

Í kjól, glimmer og glitrandi.

 

Elísabet Jökulsdóttir er fædd í Reykjavík þann 16. apríl árið 1958.   Hún lauk stúdentsprófi frá Kvennaskólanum í Reykjavík árið 1987, stundaði nám í kvikmyndahandritsgerð í höfundasmiðju LR og lauk BA-prófi í sviðslistum frá Listaháskóla Íslands árið 2008.

Elísabet starfar sem rithöfundur en á fjölbreyttan starfsferil. Hún hefur starfað á Kleppi, á veitingahúsi, verið ráðskona, háseti, afleysingakennari, lausráðinn blaðamaður við ýmis blöð og tímarit ásamt því að hafa verið með útvarpsþætti á Rás 1. Hún hefur verið ötul baráttukona fyrir verndun íslenskrar náttúru og bauð sig fram í embætti forseta Íslands árið 2016

Elísabet hefur skrifað ljóð, smásögur, örsögur, skáldsögur og leikrit.

Hún hefur verið tilnefnd til fjömargra verðlauna og hlaut árið 2020 Íslensku bókmenntaverðlaunin fyrir bókina Aprílsólarkuldi.

 

Ávarp á Alþjóðlega leiklistardeginum 27. mars 2021.

Helen Mirren, Bretland

 

Þetta hafa verið mjög erfiðir tímar fyrir allar sviðslistir og hjá mörgu listafólki, leikhústæknifólki og sviðsfólki sem ævinlega hefur lifað við óvissu og óöryggi.

En ef til vill hefur eilíft óöryggi gert það hæfara til að komast af í heimsplágunni með hugrekki og húmor að vopni.

Hugmyndaflug þeirra hefur þegar fundið sér nýjan farveg við nýjar kringumstæður í hugmyndaríku, skemmtilegu og hrífandi samskiptaformi, - þökk sé veraldarvefnum.

Allar götur frá upphafi mannvistar hefur fólk sagt hvert öðru sögur og undurfalleg list leikhússins mun lifa jafn lengi og við byggjum jörðina okkar.

Sköpunarþörf leikskálda, leikmyndahöfunda, dansara, söngvara, leikara, tónlistarfólks, leikstjóra, - allra þessara einstaklinga, - mun aldrei kafna og hún mun fyrr en varir blómstra á ný með nýja orku og með nýjan skilningi á heiminum sem við öll deilum.

Ég get varla beðið!

Ávarp Helen Mirren á frummálinu

“This has been such a very difficult time for live performance and many artists, technicians and craftsmen and women have struggled in a profession that is already fraught with insecurity.

 

Maybe that always present insecurity has made them more able to survive this pandemic with wit and courage.

 

Their imagination has already translated itself, in these new circumstances, into inventive, entertaining and moving ways to communicate, thanks of course in large part to the internet.

 

Human beings have told each other stories for as long as they have been on the planet. The beautiful culture of theatre will live for as long as we stay here.

 

The creative urge of writers, designers, dancers, singers, actors, musicians, directors, will never be suffocated and in the very near future will flourish again with a new energy and a new understanding of the world we all share.

 

I can’t wait!”                                                                          Íslensk þýðing: Hafliði Arngrímsson

 

Helen Mirren er fædd  árið 1945 í London. Hún er ein þekktasta og virtasta leikkona okkar tíma, - hefur náð alþjóðlegum frama í leikhúsi, kvikmyndum og sjónvarpi. Hún hefur hlotið fjölda verðlauna fyrir kraftmikinn og fjölhæfan leik. Meðal annars hlaut hún Academy-verðlauninn árið 2007 fyrir The Queen.

Ferill hennar hófst við National Youth Theatre og hún flutti sig fljótt um set í Royal Shakespeare Company. Eftir að hafa átt farsælan feril hjá RSC í fjögur ár söðlaði hún rækilega um og starfaði með leikhópi Peter Brook, Centre de Recherche Théâtrale og ferðaðist með leikhópnum um Afríku og Ameríku.

Síðan hefur hún leikið í fjölda leiksýninga á West End, hjá Royal Shakespeare Company, Breska þjóðleikhúsinu og á Broadway.  Árið 2009 sneri hún aftur til Þjóðleikhússins í London til að leika titilhlutverkið í Fedru eftir Racine í leikstjórn Nicholas Hyrtner. Leiksýning þessi er skráð í sögubækur þar sem hún var fyrsta sviðsetning Þjóðleikhússins breska sem var kvikmynduð og sýnd í kvikmyndhúsum um allan heim.

Fyrir skemmstu lék Helen Queen Elizabeth II í The Audience eftir Peter Morgan á West End í London í leikstjórn Stephen Daldry. Hún hlaut Olivier-verðlaunin ásamt What´s On Stage-verðlaunin sem besta leikkona. Sýningin var flutt í Gerald Schoenfeld-leikhúsið í New York og Helen Mirren áfram í aðalhlutverkinu. Þar hlaut hún einnig Tony-verðlaunin sem besta leikkona.

Meira um Helen Mirren á www.helenmirren.com