Alþjóðlegi leiklistardagurinn 27. mars 2018 – ávörp frá ITI

Til að fagna 70 ára afmæli ITI ( The International Theatre Institute) og til að leggja áherslu á þvermenningarlega og alþjóðlega hlið leikhússins og ITI þá hefur framkvæmdaráð ITI valið fimm aðila til að skrifa ávörp á alþjóðlegum degi leiklistar

Afríka: Wèrê Wèrê LIKING, Ivory Coast
Ameríka: Sabina BERMAN, Mexico
Asia: Ram Gopal BAJAJ, India
Austurlönd nær: Maya ZBIB, Lebanon
Evrópa: Simon MC BURNEY, UK

Hafliði Arngrímsson íslenskaði ávörpin

 

Ávarp á Alþjóðlega leiklistardeginum 27. mars 2018 – Afríka.

Wèrê Wèrê Liking, Fílabeinsströndin.

Dag einn
Ákveður mannvera nokkur að beina spurningum til sjálfrar sín fyrir framan spegil (áhorfendur)
Að svara sér fyrir framan þennan sama spegil (áhorfendur sína)
Að gagnrýna sig, að gera grín að eigin spurningum og svörum
Að hlæja eða gráta, hvað á þetta að þýða eiginlega, en að lokum
Að heilsa og blessa spegilinn sinn (áhorfendur sína).
Fyrir að gefa henni þetta augnablik léttis og jafnframt óþæginda
Hún hneigir sig og beygir til að sýna þakklæti og virðingu…
Innst í hjarta sínu leitaði hún friðar,
Friðar við sjálfa sig og spegil sinn.
Hún var að leika…

Þennan dag, talaði hún…
Fyrirlítandi bresti sína, þverstæður og afskræmingu,
Hneykslandi sjálfa sig með svipbrigðum, fettum og brettum;
Smásálarskapur sem hefur lítillækkað mennsku hennar
Brellur hennar sem leiddu til náttúruhamfara
Hún talaði við sjálfa sig…
Dáðist að sjálfri sér í ólgandi hviðum,
Í þrá sinni eftir mikilfengleik og fegurð,
Betra lífi, betri heimi
Sem hún myndi byggja á eigin hugsun
Sem hún gæti mótað með eigin hendi
Ef hún vildi það, segir hún sjálfri sér í speglinum,
Ef hún og spegillinn deildu saman löngun sinni…
En hún veit það: Þetta var bara leikur
Hlægilegt bara, engin spurning, blekking,
En auðvitað einnig hugarafl
Uppbygging, endursköpun heimsins,
Hún var að leika…

Jafnvel þótt hún sprengdi í tætlur allar vonir
Með orðum sínum og ásakandi augnaráði
Hætti hún ekki að trúa
Að með sínu snarklikkaða augnráði
Sínum ljúfu orðum
Sínu kankvíslega brosi
Sínum unaðslega húmor
Sínum orðum sem ýmist særðu eða sefuðu
Að allt myndi verða á þessu eina kvöldi
Að kraftaverki.
Já, hún var að leika.

Og almennt
Heima í Afríku
Sérstaklega í Kamite[1] þaðan sem ég kem
Er okkur ekki sama um neitt
Við hlægjum samt sem áður, jafnvel að okkur sjálfum,
Við hlægjum að öllu, einnig þegar við syrgjum og grátum
Við lemjum jörðina þegar hún veldur okkur vonbrigðum
Með Gbégbé[2] eða Bikoutsi[3]
Skerum út ógnandi grímur,
Glaé,[4] Wabélé[5] eða Poniougo,[6]

Til að myndgera miskunnarlausu lögmálin
Sem leggja á okkur alls kyns hringrásir og tíma
Og brúður, sem eins og við,
Líkjast þeim sem skapaði þær
Og beygja sig undir vald strengjastjórnendanna
Við upphugsum helgiathafnir þar sem hið talaða orð,
Ummyndast í taktfastan söng og andardrátt,
Og magnast upp til að yfirbuga hið heilaga
Í eggjandi dansa sem verður að leiðslu
Töfraþulur sem eru áköll um hollustu;
En einnig og umfram allt, glymjandi hlátur
Til að lofsyngja lífsgleðina
Sem hvorki margra alda nýlendustefna, þrælahald,
Rasismi, mismunun
Né sífelld ólýsanleg grimmdarverk
Gátu kæft eða slitið
Út úr sál föður og móður mannkyns;
Í Afríku, eins og alls staðar í heiminum
Við leikum…

Og á þessu sérstaka ári sem tileinkað er ITI (Alþjóðlegu leiklistarstofnunni)
Er það mér mikil gleði og mikill heiður
Að vera fulltrúi heimsálfu okkar
Og flytja friðarboðskap hennar
Friðarboðskap leiklistarinnar;
Vegna þess að  það er ekki svo langt síðan að sagt var
Að heimurinn þyrfti ekki á þessari heimsálfu að halda
Og enginn myndi finna fyrir fjarveru hennar
Nú er hún aftur viðurkennd í áríðandi hlutverki
Sem faðir og móðir mannkyns.
Og allur heimurinn streymir hingað…
Því allir vona stöðugt að finna frið,
Í faðmi foreldra sinna, ekki satt?

Í þessum skilningi boðar leikhúsið, meir en nokkru sinni fyrr,
Og allt fólk, og sérstaklega
Öll þau sem deila með sér hugsunum, orðum og verkum leiklistarinnar
Að bera meiri virðingu fyrir sjálfum sér og öðrum
Og setja í forgang bestu gildi mennskunnar,
Í þeirri von að vinna til baka meiri mannúð í hverjum og einum,
Mannúð sem vekur aftur upp greind mannsins og skilning.
Með því að nýta þessa öflugustu eiginleika í menningu fólks,
Þá eiginleika sem afmá öll landamæri: Leiklistina…
Sem eru einna gjafmildust vegna þess að hún talar öll tungumál,
Felur í sér alla siðmenningu, endurspeglar allar hugsjónir,
Og tjáir dýpstu samheldni allra manna sem
Þrátt fyrir öll átök
Hafa sérstakan áhuga á að þekkja hvern annan betur
Og elska hvern annan meir, í friðsæld.
Þegar tjáningin verður að þátttöku
Og minnir okkur á skyldu okkar til þeirra aðgerða sem
Máttur leiklistarinnar setur á herðar okkar,
Mátturinn að fá fólk til að hlæja og gráta, saman
Með því að minnka fávisku þeirra og auka þekkingu
Þannig að manneskjan verði aftur stórkostlegustu auðævi mannkyns.

Leikhúsið okkar vill endurskoða og meta í grundvallaratriðum
Öll þessi húmanísku lögmál, allar þessar háu dyggðir
Allar þessar hugmyndir um frið og vináttu milli þjóða,
Sem UNESCO boðar af öllum mætti,
Til að endurholdgast á sviðinu sem við sköpum í dag
Svo að þessar hugmyndir og lögmál verði mikilvæg nauðsyn
Í djúpri hugsun leikhúsfólksins sjálfs
Sem þau deila svo betur með áhorfendum sínum.

Þess vegna er endurtekin í sýningu okkar, „Guðstréð“ eftirfarandi speki,
Kindack[7] Ngo Biyong Bi Kuban[8] meistara okkar allra :
„Guð er eins og stórt tré“
Fólk sér aðeins einn hluta þess í einu,
Eftir sjónarhorni áhorfandans:
Sá sem flýgur yfir tréð, sér eingöngu laufið
Ef til vill einnig ávexti og blóm, allt eftir árstíma.
Sá sem lifir neðanjarðar veit meira um ræturnar,
Sá sem hallar sér upp að stofni þess, þekkir það

Af tilfinningunni í baki sínu.
Sá sem kemur úr ákveðinni átt
Sér hluta þess sem hinir sem koma úr andstæðri átt hafa ekki hugmynd um,
Einhverjir með forréttindi munu skynja leyndardóminn
Milli barkar og viðar trésins
Og aðrir, hina nánu vitneskju um kjarna trésins;
En hve náin eða yfirborðsleg þekking sérhvers manns er,
Þá hefur enginn yfir því sjónarhorni að ráða
sem veitir honum sýn á alla hluta trésins samtímis
Nema maður verði sjálfur að þessu guðdómlega tré!
En er maður þá ennþá mannvera?

Að öll heimsins leikhús umberi og viðurkenni hvert annað
Til að þjóna betur alþjóðlegum markmiðum ITI
Svo loksins á sjötugasta afmæli hennar
Verði meiri friður í heiminum,
Með öflugri þátttöku leiklistarinnar…

Wèrê Wèrê Liking fæddist í Kamerún 1. maí árið 1950 og hefur búið á Fílabeinsströndinni síðan árið 1978. Sem rithöfundur hefur hún sent frá sér næstum þrjátíu titla, skáldsögur, ritgerðir, listaverkabækur, ljóð og leikrit. Hún hefur stundað myndlist frá því árið 1968 og tekið þátt í fjölmörgum sýningum víða um heim. Þar að auki er hún dramatúrg, brúðustjórnandi með frumlegar hugmyndir og leikstjóri fjölda stórra sýninga sem ferðast hafa um heiminn. Hún hefur leikið bæði á leiksviði og í kvikmyndum og er rappari…

Sem fræðimaður í hefðbundinni kennslutækni við háskólann í Abidjan frá 1979 – 1985 tók hún þátt í byltingu helgisiðaleikhúss  í heimalandi sínu. Til þess að þróa aðferðir sínar enn frekar stofnaði hún listahópinn Ki-YiM‘bock. Hún hefur þróað sérstakt þjálfunarkerfi, sem hún byggir á afrískum vígsluathöfnum og höfðar þannig sérstaklega til mikils fjölda ungs fólks í erfiðum aðstæðum með það að markmiði að þau samlagist á ný samfélaginu og gert það að virkum þegnum, - jafnvel að forystufólki. Fyrir þetta framtak hlaut hún Prince-Claus-verðlaunin, „Hetja borgarinnar“ árið 2000. Hún hefur haldið áfram að starfa að markmiðum sínum með því að stofna Panafrísku Ki-yi-stofnunina fyrir menntun unglinga og þróun menningar árið 2001.

Hún hefur hlotið fjölda virtra verðlauna þar á meðal frönsku Prix Arletty- verðlaunin, belgísku René Praile-verðlaunin, Fonlon Nichols- verðlaunin frá Alberta-háskóla í Kanada, frönsku heiðursorðuna Chevalier des Artes et Lettres Francaises, heiðursorðu lands síns Commandeur de Ordre national du Mérite, Noma-bókmenntaverðlaunin árið 2005 og Bók ársins fyrir skáldsöguna La Mámoire Amputée. Hún er meðlimur Akademíu afrískra vísinda, lista og menningar í Fílabeinsströndinni.

[1] Kamit = Íbúar Kamita, lands hinna svörtu, meginlandsins sem í dag heitir Afríka. Kamit táknar alla upprunalega íbúa sem og afkomendur þeirra sem tvístruðust um heim allan og einnig þeir sem iðka frumtrúarbrögð þessa heimshluta.
[2] Gbégbé er hefðbundinn dans Fílabeinsstrandarinnar, frá Bété-héraðinu, og notaður við opinberar athafnir hvort sem er í gleði eða sorg. Er dansaður í öllum þorpum Bété og hefur breiðst út til annarra héraða landsins.
[3] Bikoutsi: a) Kout: Berja b) Si: Jörð. Dans sem á uppruna sinn í Fan Béti í Suður-Kamerún og upphaflega dansaður af konum þegar hlutirnir snerust um að fá eitthvað frá móður jörð: Góða uppskeru, betra veður eða rjúfa keðju hörmunga og ógæfu. Þess vegna varð að berja jörðina af krafti til að hún hegðaði sér betur. Þessi dans hefur breiðst út um allt land vegna þess að unga fólkið í landinu og einnig handan landamæra þess hefur tekið hann upp.
[4] Glaé: Trúarlegt kerfi Wé og Wobé og byggður á grímum ættað frá vesturhluta Fílabeinsstundarinnar. Fjöldi gríma með ýmiss konar merkingu og virðingu, stundum eru þær ógnvekjandi. Þær eru hornsteinar hinna ýmsu trúarbragða og samfélagsgerða þjóðanna.
[5] Wabélé: Ein gríma hins trúarlega Senufo-kerfis í norður hluta Fílabeinsstrandarinnar. Eldspúandi híenuhöfuð sem táknar þekkingu og völd.
[6] Poniougo: Önnur gríma Senufo-kerfisins sem byggð er á Poro, vígsluathöfn í hjarta hinna heilögu skóga, sem stjórnar öllu samfélaginu.
[7] Kindack: Bein þýðing: Meistari (kona) meðmæla, titill gefinn Mæðraveldinu. Konur sem náð hafa vísdóms-viðurkenningu í vígsluathöfn Mbock eða Mbog, trúarbrögð Bassa-héraðs í Mið-Kamerún og samsvarandi titli karla,  Mbombock.  
[8  Ngo Biyong Bi Kuban = Stúlka Biyong sonur Kuban. Þetta eru nöfn ömmu minnar,  sem var ein sú síðasta sem þekkti Ki-Yi Mbock og ég erfði frá henni og hef miðlað í meir en þrjátíu ár.

 

Ávarp á Alþjóðlega leiklistardeginum 27. mars 2018 – Ameríka.

Sabina Berman, Mexico.

Ímyndum okkur.

Ættbálkur veiðir smáfugla með því að kasta grjóti að þeim. Þá birtist skyndilega risastór mammúti og ÖSKRAR. Í sama mund ÖSKRAR lítil mannvera nákvæmlega eins og mammútinn. Þá hlaupa allir burt…

Þetta mammútaöskur, frá konu – mig langar að ímynda mér konu – er upphafið að því sem gerir okkur að þeirri tegund sem við erum. Tegund sem er fær um að líkja eftir einhverju sem hún er EKKI. Tegund sem er fær um að líkja eftir öðrum.

Við skulum hlaupa yfir tíu ár, eða hundrað ár, eða þúsund. Ættbálkurinn hefur lært að herma eftir öðrum verum og djúpt inni í helli, í flöktandi ljósi frá báli, leika fjórir menn mammútann, þrjár konur eru fljótið, menn og konur eru fuglar, tré, blóm, ský. Þau leika veiðar að morgni. Þannig býr fólkið til fortíð með aðferðum leiklistarinnar. Og enn undursamlegra: Þannig býr ættbálkurinn sér til hugsanlega framtíð, býr til ýmsar hugsanlegar leiðir til að sigra óvininn, mammútann.

Úr öskrum, blístri, muldri – hljóðlíkingum frumleikhússins - verður til tungumáli. Talað mál verður skrifað mál. Eftir öðrum stíg verður leikhúsið helgisiðir og síðan að kvikmynd.

Í frumkjarna allra þessara forma mun alltaf vera til leikhús. Einfaldasta og lífvænlegasta form á sýningu.

Því einfaldara og nánara sem leikhús er, þeim mun sterkar tengir það okkur við undursamlega mannlega kunnáttu: Hæfnina að líkja eftir öðrum.

Í dag fögnum við í öllum leikhúsum heims þessum einstaka hæfileika mannkyns að leika: Að líkja eftir og sýna fortíðina, til að geta skilið hana – og einnig finna upp hugsanlega framtíð sem gæti fært okkur meira frelsi og hamingjuríkara líf.

Að sjálfsögðu er ég að tala um leikrit sem eru raunverulega mikilvæg og ná lengra en venjuleg afþreying. Þessi mikilvægu leikrit hafa sama markmið í dag og fyrstu vísar að leikritum í upphafi leiklistar: Að sigra óvini hamingjunnar með hæfileikum leiklistarinnar.

Hvaða nútíma mammúta þarf leikhúsið að sigra? Hverjir eru óvinir þess í nútímanum? Um hvað á leikhús að fjalla sem vill vera meira en afþreying?

Langstærsti mammútinn er firringin í hjarta manna. Að týna hæfileika okkar að finna til með öðrum: Að sýna samferðafólki okkar samkennd og einnig öðru lifandi, - náttúrunni.

Þvílík þversögn. Núna á ystu endimörkum húmanismans – mannaldarinnar – á þeim tímum þegar maðurinn er það náttúruafl sem breytt hefur jörðinni mest og mun halda því áfram – erindi leikhússins er – að mínu áliti – andstæðan við iðju ættbálksins í hellinum forðum: Í dag verðum við að bjarga tengslum okkar við náttúruna.

Leikhúsið krefst viðveru fólks fyrir framan annað fólk og er þess vegna stórkostlegum eiginleikum búið til að takast á við þetta verkefni, að forða okkur frá því að verða sjálfvirk reikniforrit.

Hreinsum leikhúsið af öllu þarflausu. Strípum það bert. Vegna þess að því einfaldara sem leikhúsið er, þeim mun betur er það í stakk búið til að minna okkur á það sem er engum vafa undirorpið: Við erum, vegna þess að við erum í tíma, við erum einungis vegna þess að við erum af holdi og beinum, við erum á meðan hjartað slær í brjósti okkar. Við erum hér og nú, bara hér og nú.

Lengi lifi leikhúsið. Elst lista. Listin í núinu. Undursamlegust lista. Lengi lifi leikhúsið.

Sabina Berman, er fædd í Mexíkóborg, rithöfundur og blaðamaður. Hún hefur náð mestum frama mexíkóskra rithöfunda, um leið gagnrýnust þeirra. Hún er í flokki mest ögrandi nútímaskálda spænskrar tungu.

Áður en hún fæddist flúðu foreldrar hennar Gyðingaofsóknir í heimalandi sínu Póllandi og settust að í Mexíkó þar sem Sabina ólst upp ásamt tveimur bræðrum og systur. Þau voru alltaf meðvituð um þau fjárhagslegu áhrif sem útlegðin hafði á fjölskylduna,  allt til fullorðinsára.

Í verkum sínum sem rithöfundur eru viðfangsefni hennar einkum um margbreytileikann og þær hindranir sem hann á við að stríða. Stíll hennar einkennist af húmor og þörf hennar til að þenja mörk tungumálsins. Hún hefur unnið fjórum sinnum til mexíkósku bókmenntaverðlaunanna og tvisvar hefur hún verið heiðruð  mexíkósku blaðamannaverðlaununum. Leikrit hennar hafa verið flutt víða um heim og skáldsaga hennar La mujer que buceó dentro del corazón del mundo (Konan sem kafaði inn í miðju jarðar) hefur verið þýdd á fjölda tungumála.

Um þessar mundir skrifar hún handrit fyrir kvikmyndir og sjónvarp.

 

Ávarp á Alþjóðlega leiklistardeginum 27. mars 2018 – Asía.

Ram Gobal Bajaj, India.

 Eftir allar þróunarsögurnar vitum við nákvæmlega aðeins eitt: Að allt sem lifir leitast við að lifa að eilífu. Ef það væri mögulegt reynir lífið að gegnumsýra tíma og rúm, til að verða ódauðlegt. En í þeirri viðleitni hefur hið lifandi tilhneigingu til að afmynda sjálft sig og þurrka sig út. En hvað um það. Við skulum einbeita okkur eingöngu að því að íhuga hvernig mannúðin þraukar frá tímum hellisbúans á steinöld til okkar geimaldar. Erum við tillitsamari núna? Næmari? Kátari? Ástúðlegri við náttúruna sem fæddi okkur?

Frá upphafsárum okkar á steinöld hafa sviðslistirnar (dans, tónlist, leiklist) þróað tungumálið sem sett er saman úr sérhljóðum og samhljóðum. Í grunninn tjá sérhljóðar tilfinningar eða skynjun og samhljóðar form og hugsun, - þekkingu. Þaðan koma stærðfræði, landafræði, vopn og nú síðast tölvur. Þróun tungumálsins er óafturkræf. Jörðin sjálf mun ekki lifa ef gleðigefandi sviðslistir og þekking (tækni meðtalin) losnar ekki frá hversdagslegri reiði, græðgi og illsku.

Fjölmiðlar, vísindi og tækni hafa fært okkur djöfulleg völd. Leikhúsið sjálft er sem sagt ekki í krísu, heldur innihaldið, boðskapurinn, umfjöllunarefnið. Við verðum að höfða til nútímamannsins að halda áfram að bjarga jörðinni og um leið leikhúsinu. Strax í grunnskóla verður að kynna börnum leiklistina og aðrar sviðslistir og leyfa þeim að komast í snertingu við þær svo að kynslóð vaxi úr grasi sem umgengst lífið og náttúruna af meiri tillitssemi, umhyggju og réttlæti. Afrek tungumálsins gætu þá skaðað jörðina og aðrar plánetur miklu minna. Auk þess mun leikhúsið verða mikilvægara í að viðhalda og næra lífið sjálft. Og á þessum alheimstímum, ef svo má að orði komast, þurfa áhorfendur og listafólk að styrkja hvert annað í stað þess að ógna hvert öðru.

Húrra fyrir leikhúsinu og ég skora á heiminn allan að beita sér á grasrótarplani, í borgum og sveitum. Beitum okkur í sameiningu af lífi og sál með tungumáli og hluttekningu fyrir menntun komandi kynslóða.

Ram Gopal Bajaj er fæddur í Darbhanga á Indlandi, leikari, leikstjóri, leiklistarkennari og rithöfundur. Hann hefur hlotið fjölda viðurkenninga og er mikils metinn leikhúsmaður.

Að loknu háskólanámi í Bihar hóf hann nám við Leiklistarskóla ríkisins sem hann hefur í raun aldrei skilið við síðan. Að loknu leikaranáminu hóf hann störf við leiklist og einbeitti sér sérstaklega að menntun leikara. Hann starfaði sem rektor háskólans, og sem gestakennari annars staðar. Hann er með prófessorsstöðu við háskólana í Punjabi, Hyderabad og í Neu-Delhi.

Eftir að hafa skapað sér nafn við leiklistarkennslu stofnaði hann ásamt öðrum leikhópinn Dishantar árið 1967 þar sem hann hóf leikferil sinn fyrir alvöru. Strax í upphafi hlaut hann lof og viðurkenningu fyrir leik sinn bæði í innlendum sem alþjóðlegum leikritum. Síðar náði hann frama sem leikstjóri þar sem hann nýtti sér reynslu sína af leiklistarkennslu og leik.

Hann hefur leikið í um fjörutíu leikritum og leikstýrt um fimmtíu verkum. Hann hefur hlotið fjölda verðlauna bæði fyrir leik og leikstjórn. Á síðasta ári hlaut hann verðlaun fyrir besta leik á Dada Saheb Phalke kvikmyndahátíðinni. Hann hefur þýtt um tuttugu leikrit úr ýmsum tungumálum á indverska tungu, hindi.

Ram Gopal Bajaj var sæmdur fjórðu æðstu orðu Indlands, Padma Sri árið 2003 og hlaut ýmis verðlaun fyrir lífsstarf sitt árin 2015, 2016 og 2017.

Enn í dag starfar hann sem leikari, leikstjóri og leikskáld.

 

Ávarp á Alþjóðlega leiklistardeginum 27. mars 2018 – Austurlönd nær.

Maya Zbib, Líbanon.

 Það er augnablik sameiningar, einstök samkoma sem er hægt að endurtaka, sem ekki er til í neinni annarri athöfn. Ekkert annað en hópur fólks sem hefur ákveðið, á ákveðinni stund og á ákveðnum stað að koma saman og upplifa sameiginlega sérstaka samkomu. Þetta er boð til einstaklinga að upplifa sameiginlega, skiptast á hugmyndum og finna leiðir til að bera saman byrði nauðsynlegra aðgerða… að finna aftur sameiginleg mannleg tengsl. Ekki til að undirstrika greinarmun, heldur til að finna það sem sameinar. Það er staður þar sem sérstakar sögur ná því að verða algildar… Hér liggja töfrar leikhússins, þar sem framsetningin endurheimtir forna merkingu.

Á tímum einangrunar og einmanaleika, þegar hömlulaus ótti ríkir gagnvart öðrum, verður sameiginleg og nálæg samvera hér og nú, að ást og kærleika. Að taka sér tíma, frá hraðri fullnægju, - kröfum neyslusamfélagsins, frá hraðanum sem einkennir samfélag okkar æ meir. Að taka sér tíma til að hægja á, til að hugleiða og skoða í sameiningu, verður að pólitískri aðgerð, aðgerð gjafmildi.

Hvernig getum við endurreist framtíð okkar í heimi þar sem helstu hugmyndir hafa mislukkast áratugum saman? Getum við rætt óþægileg málefni þar sem öryggi og þægindi eru helstu hugðarefni í allri umræðu? Myndum við fara til hættulegra landsvæða án ótta við að missa forréttindin?

Í dag er hraði upplýsinga mikilvægari en þekking, frasar eru dýrmætari en orð og það er meiri virðing borin fyrir myndum af líkum en lifandi líkömum fólks. Leikhús er til að minna okkur á að við erum af holdi og blóði og að líkamar okkar hafa þyngd. Það er til að vekja öll skilningarvit okkar og til að segja okkur að við skynjum ekki eingöngu með augum. Leikhúsið er til þess að gefa orðunum aftur völd sín og merkingu og stela frá stjórnmálamönnum orðræðunni og setja hana aftur á sinn verðuga stað…  á svið hugmynda og rökræðna, á  svið sameiginlegra hugsýna.

Leikhúsið veitir okkur nýja sýn á heiminn og okkur sjálf með ógnarkrafti frásagnarinnar og ímyndunaraflsins, vegna þess að mitt í gríðarmiklu fálæti og sáralitlu umburðarlyndi, opnar það rými til íhugunar. Á tímum þegar útlendingahatur, hatursorðræða og drottinvald hvítra hefur rutt sér léttilega leið í umræðuna, þrátt fyrir áralanga baráttu og fórnir milljóna manna um heim allan. Baráttu fyrir að dæma þessa umræðu svívirðilega og ótæka… Á tímum þegar unglingar eru skotnir eða hnepptir í fangelsi vegna þess að þau sætta sig ekki við óréttlæti og kynþátta-aðskilnaðarstefnu… Á tímum þegar vitfirringar- og hægriofstækismenn stjórna sumum mikilvægustu ríkjum „fyrsta heimsins“… Á tímum þegar sýndarleikir karlastráka um völd orsaka hættu á yfirvofandi kjarnorkustríði… Á tímum þegar hreyfanleiki einskorðast meir og meir við fáa útvalda, um leið og flóttafólk sem er að reyna að yfirstíga himinháa múra tálsýna sinna, drukknar í hafi og æ fleiri og dýrari múrar eru byggðir… Hvert í veröldinni eigum við að leita þegar næstum allir fjölmiðlar eru uppseldir? Hvar annars staðar en í nánu leikhúsi er hægt að íhuga mannlegt ástand og leggja grunn að nýjum heimi… í sameiningu, í kærleika og samkennd, en einnig með uppbyggilegum rökræðum, þrautseigju og styrk.

Ég er frá arabaheiminum og gæti sagt margt um þá erfiðleika sem listamenn og -konur þurfa að yfirstíga við störf sín. Leikhúsfólk minnar kynslóðar lítur á það sem forréttindi að þurfa ekki að berjast við ósýnilega múra heldur sýnilega. Það hefur kennt okkur að búa til nýtt úr því sem stendur til boða og fullnýta í ystu æsar samvinnu og hugmyndaauðgi. Stunda leiklist í kjöllurum, á húsþökum, í heimahúsum, í þröngum götum, og á breiðgötum og í borgum, þorpum, flóttamannabúðum og finna þannig áhorfendur með öllum ráðum. Við urðum að byrja á byrjunarreit og úthugsa leiðir til að sneiða hjá ritskoðun en jafnframt fara yfir línuna og storka forboðnum hlutum  – það var okkar hagur. Öllu leiklistarfólki í heiminum eru þessir múrar sýnilegir, enda eru styrkir og stuðningur minni en nokkurri sinni fyrr og pólitískur rétttrúnaður er nýja ritskoðunin.

Því hefur alþjóðlega leiklistarsamfélagið gríðarlega mikilvægu hlutverki að gegna, meir en nokkru sinni fyrr, að berjast gegn sífjölgandi múrum, sýnilegum og ósýnilegum. Nú er þörf á frjórri baráttu við að endurnýja félagslega og pólitíska samfélagsgerð, með heiðarleika og kjarki. Að viðurkenna veikleika okkar og taka ábyrgð á heimi sem við öll tökum þátt í að byggja upp. Sem víðsýnt leikhúsfólk fylgjum við hvorki hugmyndafræði né trúarbrögðum. Það sem tengir okkur saman er óþreytandi leit að sannleika í öllum birtingarmyndum hans, sífeldar skilgreiningar á kyrrstöðu, barátta við kúgunaröfl og síðast en ekki síst: Mannleg heilindi okkar.

Við erum mörg, við óttumst ekkert og við erum hér og verðum áfram!

Maya Zbib er leikstjóri, rithöfundur og einn stofnenda Zoukak Theatre Company í Beirut, Líbanon. Hún stundaði nám í leiklist við listadeild Háskóla Líbanons 2003.

Verk hennar, þar á meðal The Music Box og Silk Thread hafa verið sýnd á listahátíðum í Austurlöndum nær, Evrópu, í Bandaríkjunum, Afríku, Latnesku-Ameríku og Suðaustur-Asíu. Hún kennir leiklist um allan heim bæði á háskólastigi sem öðrum stigum skólakerfisins.

Hún hefur verið verkefnaráðin meðal annars við háskólann í Houston, Williams College, Borgarleikhúsið í Krefeld-Mönchengladbach og listahátíðina Schwindelfrei í Þýskalandi, LIFT-hátíðina og Royal Court leikhúsið í London.

Zbib útskrifaðist með MA gráðu frá Goldsmith háskólann í London árið 2007, meðlimur í Alumna Chevening/KRSF árið 2007, Cultural Leadership International Programms British Council árið 2010. Hún er styrkþegi International Society for the Performing Arts (ISPA) í New York árið 2010 o.m.fl.

Zoukak hlaut Ibsenverðlaunin árið 2012 og Menningarfriðarverðlaun Chirac-stofnunarinnar árið 2017

 

Ávarp á Alþjóðlega leiklistardeginum 27. mars 2018 – Evrópa.

Simon McBurney, United Kingdom.

 Í hálfrar mílu fjarlægð frá ströndum Kyrenaika í norðurhluta Líbýu er gríðarstór berghellir. Áttatíu metra breiður og tuttugu metra hár. Á mállýsku innfæddra er hann nefndur Hauh Fteah. Árið 1951 sýndi kolefnisaldursgreining fram á í það minnsta hundrað þúsund ára sleitulausa búsetu manna á svæðinu. Á meðal fornleifa var flauta úr beini sem álitin er vera 40.000 til 70.000 ára gömul. Þegar ég var litill drengur var mér sagt frá þessu og ég spurði föður minn. „Voru þau með tónlist þá?“

Hann brosti til mín. „Eins og öll samfélög manna.“

Hann var fæddur Bandaríkjamaður, var vísindamaður sem rannsakaði forsögulega tíma og fyrstur til að stunda fornleifagröft í Hauh Fteah í Kyrenaika.

Það er sannur heiður að vera fulltrúi Evrópu á þessum alþjóðlega degi leiklistarinnar.

Árið 1963 þegar heimurinn var svo að segja lamaður vegna yfirvofandi kjarnorkustríðs, skrifaði fyrirrennari minn, hinn stórkostlegi Arthur Miller: „Þegar maður er beðinn um að skrifa á tímum þegar diplómasía og stjórnmál eru jafn fullkomlega máttlaus, verður hin viðkvæma en oft lífseiga list að axla þær byrðar að halda hlífiskildi yfir mannkyninu.“

Orðið drama á rætur að rekja til gríska orðsins „drana sem þýðir að „aðhafast, að gera,“ og orðið theater er af gríska orðinu „theatron“ sem þýðir bókstaflega: „Staður, þaðan sem maður horfir á.“ Staður þar sem við horfum ekki bara á, heldur sjáum, tökum á móti, skiljum. Fyrir 2400 árum teiknaði Pólýkleitos, hinn yngri, hið mikla leikhús í Epídárus. Þar komust um það bil 14.000 áhorfendur í sæti og stórkostlegur hljómburður þessa útileikhúss jaðrar við undur. Hver einasti hinna 14.000 áhorfenda heyrir þegar kveikt er á eldspýtu á miðju leiksviðinu. Í grísku leikhúsunum einblíndu áhorfendur ekki eingöngu á leikarana á leiksviðinu heldur sáu þeir einnig landslagið í bakgrunni. Þannig fléttuðust ekki aðeins saman ýmsir staðir, samfélagið, leikhúsið og náttúran umhverfis það samtímis, heldur einnig allir tímar. Leikurinn kallaði fram í nútímann fornar goðsögur og fólk gat horft yfir leiksviðið þar sem fjarlægasta framtíð okkar birtist: Náttúran.

Ein merkasta uppgötvun við endurbyggingu Globe-leikhúss Shakespeares í London snertir einnig það sem maður sér. Þessi uppgötvun er ljósið. Bæði leiksvið og áhorfendasvæði eru jafn upplýst. Leikendur og áhorfendur sjá hverjir aðra. Alltaf. Hvert sem þú lítur er fólk. Þannig erum við minnt á að hin miklu eintöl, til dæmis þeirra Hamlets og Makbeths, eru ekki eingöngu einkahugleiðingar heldur einnig opinberar umræður.

Við lifum á tímum þegar erfitt er að sjá skýrt. Við erum umkringd meiri blekkingum en nokkru sinni fyrr, hvorki á sögulegum tímum né forsögulegum. Hægt er að efast um allar „staðreyndir“ og sérhver skrýtla getur birst okkur sem „sannleikur“. Ein er sú lygi sem er sífellt umhverfis okkur. Það er lygin sem reynir að sundra okkur. Heldur okkur fjarri sannleikanum og hvert frá öðru. Þannig að við skiljumst að. Þjóðir frá þjóðum. Konur frá mönnum. Fólk frá náttúru.

En við lifum ekki aðeins á tímum aðskilnaðar og sundrungar, heldur einnig á tímum gífurlegrar hreyfingar. Aldrei fyrr í mannkynssögunni hefur fólk verið jafn mikið á ferðinni, iðulega á flótta, gangandi, syndandi ef nauðsyn krefur, flytjast milli landa um heim allan. Og þetta er einungis upphaf. Eins og við höfum orðið vör við eru viðbrögðin þau að loka landamærum. Byggja múra. Útiloka. Einangra. Við lifum í heimi harðstjórnar, þar sem tómlæti er skiptimynt og vonin er smyglvara. Og hluti þessarar harðstjórnar er eftirlit með tíma og rúmi. Við lifum á tímum þar sem flestir forðast nútímann. Við einbeitum okkur að nýliðinni fortíð og næstu framtíð. Ég á ekki þetta. Ég kaupi það.

Og núna þegar ég hef keypt það verð ég að fá næsta... hlut. Dýpstu fortíð er eytt. Framtíðin skiptir engu máli.

Margir segja að leikhúsið muni ekki breyta eða geti ekki breytt neinu. En það mun ekki hverfa. Vegna þess að leikhúsið er vettvangur. Mig langar til að segja skjól. Þar sem fólk kemur saman og myndar samstundis samfélag. Eins og við höfum alltaf gert. Öll leikhús eru á stærð við fyrstu samfélög manna: Fimmtíu til fjórtán þúsund sálir. Frá úlfaldalest hirðingja til þriðjungs hinnar fornu Aþenu.

Og vegna þess að leikhús er eingöngu til í nútíð, ögrar það hræðilegri ásýnd tímans. Leikhúsið fæst alltaf við nútímann. Merking þess er alltaf samansett af sameiginlegu verki leikenda og áhorfenda. Ekki bara hér, heldur núna. Án verks leikenda væru áhorfendur ekki færir um að trúa. Án trúar áhorfenda væri sýningin ekki fullgerð. Við hlæjum á sama augnabliki. Við erum hrærð. Við tökum andköf, erum flemtri slegin í þögn. Og á þessu augnabliki fyrir tilstylli dramans uppgötvum við í leikhúsinu dýpsta sannleikann: Það sem við héldum að væri okkar innstu persónulegu tilfinningar, mörk okkar eigin einstaklingsbundnu meðvitundar, er sem sagt einnig án marka. Það er eitthvað sem við eigum sameiginlegt.

Og þeir geta ekki stöðvað okkur. Hvert einasta kvöld stígum við aftur á svið. Hvert einasta kvöld sameinast leikarar og áhorfendur enn einu sinni. Og sama leikrit verður enn á ný sett á svið. Vegna þess, eins og rithöfundurinn John Berger segir: „Hin trúarlega endurgerð er rótgróin í innsta eðli leikhússins.“ Þess vegna hefur þetta alltaf verið list hinna jaðarsettu og afskiptu og með tilvísun í eyðileggingu jarðar,  erum við öll afskipt. Hvar svo sem leikarar og áhorfendur hittast  verða sögur sviðsettar sem hvergi annars staðar geta verið sagðar, hvort sem það er í óperuhúsi eða borgarleikhúsi eða í búðum flóttamanna og hælisleitenda í Norður-Líbíu og alls staðar í heiminum. Þessar endursviðsetningar munu tengja okkur saman að eilífu.

Og ef við værum í Epídárus gætum við litið upp og séð hvernig við deilum þessu öllu með víðfeðmu landslagi. Að við erum alltaf hluti náttúrunnar og við getum ekki flúið hana, ekki fremur en við getum flúið jarðkringluna. Ef við værum í Globe-leikhúsinu myndum við sjá að einstaklingsbundnar spurningar koma okkur öllum við. Og ef við gætum haldið á 40.000 ára gömlu flautunni frá Kyrenaika, þá myndum við skilja að fortíð og nútíð er óaðskiljanleg og harðstjórar og lýðskrumarar geta ekki slitið bönd mannlegs samfélags.

Simon McBurney er fæddur í Cambridgehire, á Bretlandi. Hann er leikari, rithöfundur og leikstjóri. Eftir að hafa lokið námi í enskum bókmenntum við Cambridgeháskóla sneri hann sér að leikhúsinu og innritaðist í skóla Jacques Lecoq í París.

Hann varð einn stofnenda Theatre de Complicite í London árið 1983 og leikstýrði þar fjölda verkefna. Meðal frægra sýninga flokksins má nefna Mnemoniuc (1999), Fíllinn hverfur (2003), Hjarta hunds (2010), Meistarinn og Margaríta (2011).

Auk leikstjórnar skrifaði McBurney leikritið Hverfandi númer sem segir frá samstafi bresks stærðfræðings og indversks vísindamanns. Hann leikstýrði einnig verkinu og sýningin ferðaðist um allan heim. Árið 2009 skrifaði hann leikritið Shun-kin sem byggir á skáldsögu japanska rithöfundarins Jun´ichiro Tanizaki og leikstýrði því einnig.

Theatre de Complicte er þekkt fyrir sinn ákveðna leikstíl sem leggur mikla áherslu á kraftmikla líkamlega tjáningu, ljóðrænar og súrrealískar myndir. Sýningar leikflokksins hafa ferðast víða um heim. Meðal annars kom The Street of Crocodiles hingað til Íslands á Listahátíð árið 1994.

Simon McBurney hefur hlotið fjölda viðurkenninga, m.a. Laurence Olivier-verðlaunin árið 1998 fyrir besti danshöfundur í útfærslu hans á Krítarhringnum í Kákasus. Hann fékk gagnrýnendaverðlaun árið 1999 fyrir Mnemonic og árið 2007 fyrir Hverfandi númer. Árið 2005 var hann gerður að Officer of the Order of the British Empire.

Simon McBurney starfar einnig sem leikari og handritahöfundur fyrir kvikmyndir og sjónvarp.