Alþjóðlegi leiklistardagurinn 27. mars 2018 – ávarp frá Íslandi, Brynhildur Guðjónsdóttir leikkona
Ávarp á sjötíu ára afmæli Alþjóðlega leiklistardagsins
Fyrir rúmum fjörtíu árum fór lítil stúlka í leikhús með foreldrum sínum. Hún sat eins og ljós alla sýninguna, söng með og fylgdist grannt með öllu sem fyrir augu bar. Hún tók inn allt sem fyrir skilningarvitin var borið: Ræningjar og ljón, eldsvoði og asnakerra og einn og tveir og þrír og einn og tveir og þrír. Tjaldið féll að lokinni sýningu, þykkt og djúprautt. Áhorfendur klöppuðu. Heimurinn sem barnið hafði fengið að búa í um stund var horfinn sjónum en að eilífu greyptur í minnið. Frammi í fatahengi trompaðist svo stillt og prúð stúlka. Foreldrarnir, kennari með alskegg í brúnum flauelsbuxum og fóstra með stór gleraugu í fjólubláu pilsi og háum leðurstígvélum, vissu ekki hvaðan á þau stóð veðrið. Þau hálfskömmuðust sín fyrir hamhleypuna sem, löðrandi sveitt um hausinn, æddi um alla ganga og henti sér æpandi á Þjóðleikhústeppið með allar taugar þandar og ný-uppgötvaðan heim í brjóstinu. Allt fór vel að lokum, við komumst klakklaust út í rauða Taunusinn og heim í Kópavog.
Þetta var umbreytandi upplifun, upplifun sem breytti DNA-i barnsins, vakti áhuga, bjó til orku og víkkaði sjóndeildarhringinn. Mikill er máttur Kardemommubæjarins.
Leikhús er nefnilega, þegar best tekst til, upplifun sem skilur eftir fallegt fingrafar á sálinni. Það er á sífelldri hreyfingu og staðnar aldrei. Leikhús er staður sem skoðar okkur í hinu víðasta samhengi allra hluta. Leikhús er samvera. Það er þroskandi, menntandi, upplýsandi, ljómandi og leiftrandi. Leikhús er skemmtilegt. Það getur líka verið hrútleiðinlegt, en hver hefur ekki gott af því að láta sér leiðast annað veifið? Leikhús er eitthvað sem þú manst. Eitthvað sem frumurnar þínar muna. Leikhús er augnablik sem varir að eilífu.
Tákn leikhússins eru tvö andlit, tvær grímur: önnur glöð en hin sorgmædd. Tvær hliðar á sama peningi. Við í okkar mótsagakenndu, mennsku mynd. Að skipta skapi, að skipta um ham, að bregðast við, að finna, að finna til, að búa til minningar, að gera þetta sem við öll gerum: að lifa. Við sem vinnum við leikhúsinu erum í þeim bölvanlega bissniss að sýsla með tilfinningar. Það er vissulega loftkennt og ekki auðvelt að setja materíalíska mælistiku á afurðina. Áhrifin eru þó ótvíræð og hvað er stund sem sameinar okkur og lyftir andanum annað en verðmæt?
Við erum fámenn þjóð og það er merkilegt að á Íslandi sé hægt sé að sýna sömu leiksýninguna fyrir fullum 529 sæta sal Borgarleikhússins 188 sinnum. Það er líka stórmerkilegt að hægt sé að halda úti atvinnuleikhúsi á 80 manna baðstofulofti í Borgarnesi. Hvor tveggja staðurinn er heilagur og báðir jafngóðir fyrir samverugjörninginn sem leikhús er. Það eru töfrarnir sem eiga sér stað á milli sviðs og salar, þetta ósýnilega X sem engin vísindi skilja en allir þrá að beisla, sem gerir leikhúsið að þeim máttuga stað sem það er.
Á tímum sjálfhverfu, þegar þorri manna hefur mestan áhuga á að taka af sér mynd í von um rafræna umbun. Á tímum þegar heimurinn hálfur er í stríði, milli landa, milli þjóða, milli þjóðarbrota, milli borgara, milli trúarhópa, milli skoðana og við öll við náttúruna. Á tímum þegar meiri möguleiki er á að hitta fyrir plastpoka en skrautfisk þegar snorklað er við kóralrif. Á tímum þegar vitundarvakninga er þörf á svo mörgum sviðum þá er meiri þörf en ella fyrir leikhúsið og samfélagsvitundina sem það býr til. Í gegnum það að segja sögur öðlumst við skilning á okkur sjálfum, á því hvað það er að vera manneskja með tilgang.
Mikilvægi leikhússins í menningarflóru okkar er gríðarlegt og við þurfum stuðning og skilning stjórnvalda á mikilvægi lista. Það er allt unnið með því að halda vel utan um menningu okkar og listir, tungu okkar og tjáningu. Leikhúsið er vettvangur skilnings, skilningur eykur umburðarlyndi, umburðarlyndi býr til sátt og sátt kemst ansi nálægt því að jafngilda friði.
Menntun og menning eiga að vera hornsteinar samfélagsins. Menntamálaráðherra hefur gefið út að vilji sé til að stuðla að hugverkadrifnu og skapandi samfélagi. Það er vel og nú er sóknarfæri. Hugverk verða aldrei kreist út úr regluverki, þau spretta spretta hins vegar úr skapandi jarðvegi. Til þess að ná markmiðinu verður að hlúa að kennslu skapandi greina, ekki á kostnað annarra greina heldur aðeins að listgreinum verði gert jafnhátt undir höfði og hefðbundnum námsgreinum. Þetta helst nefnilega allt hendur. Barn sem hefur greiðan aðgang að skapandi greinum verður betur í stakk búið til að takast á við áskoranir lífsins. Það finnur fyrr sinn farveg og verður sáttari fullorðinn einstaklingur.
Og fyrst búið er að minnast á menntamálin þá er engin ástæða til að láta heilbrigðismálin eftir liggja. Það er engum blöðum um það að fletta að það er gríðarlega flókið að vera manneskja: öfgakennt og æðislegt, aumt og stórfenglegt. Nú skal potað í sjálfskapað síðusár geðheilbrigðismála: Ef raunverulegur vilji er til að ræða geðheilbrigði af alvöru og sýna vilja í verki til að grípa þau okkar sem hrasa þá, aftur, eru listir lykillinn. Vellíðan fólks skiptir öllu máli. Við hér á Íslandi búum við bestu skilyrðin, það er ekkert hér sem er okkur fjötur um fót nema skilningsleysi. Látum skilningsleysið ekki að geta af sér frekara hugsunarleysi.
Það er mín von að hér á landi verði haldið vel utanum leikhúsið. Það á það skilið og áhuginn er svo sannarlega fyrir hendi. Ég óska þess einnig að leiklistarkennsla verði notuð í ríkari mæli á yngri námsstigum því hún er lykill að öllum öðrum greinum. Njótum leikhúss og leyfum okkur að verða fyrir hughrifum. Gefum okkur þá gjöf að geta, á einni kvöldstund, öðlast heila ævi af hugmyndum og fyllt okkur af raunverulegum markmiðum í lífinu. Leikhúsið er leiðin að betri skilningi og með því að skilja byggjum við betra samfélag. Þetta snýst um okkur öll.
Takk Soffía frænka, Tóbías og Kamilla litla. Takk allir sem fylgt hafa í kjölfarið fyrir að opna fyrir mér víddir, virkja í mér orkuna gefa mér tilgang.
Lifi leikhúsið!
Brynhildur Guðjónsdóttir
Brynhildur lauk námi í leiklist frá Guildhall School of Music and Drama vorið 1998 og lék í kjölfarið sitt fyrsta hlutverk á sviði við Royal National Theatre í London. Hún var fastráðin við Þjóðleikhúsið á árunum 1999 til 2011 en hefur starfað við Borgarleikhúsið síðan og tekið þátt í fjölda verkefna.
Hlutverk hennar á leiksviði eru komin yfir þriðja tuginn og hefur hún sex sinnum hlotið Grímuverðlaunin: 2004 fyrir titilhlutverkið í Edith Piaf, 2006 fyrir Sólveigu í Pétri Gaut, 2008 fyrir BRÁK, 2013 fyrir hlutverk hinnar pólsku Danielu í Gullregni Ragnars Bragasonar og 2016 fyrir hlutverk Njáls í Njálu. Brynhildur hreppti að auki Grímuverðlaunin 2008 sem Leikskáld ársins fyrir BRÁK sem samið var sérstaklega fyrir Söguloft Landnámsseturs Íslands í Borgarnesi.
Brynhildur hlaut styrk úr Minningarsjóði Frú Stefaníu Guðmundsdóttur árið 2008 og er hún handhafi Íslensku Bjartsýnisverðlaunanna 2008. Veturinn 2011-2012 var Brynhildur rannsóknarnemandi við Yale School of Drama í Bandaríkjunum þar sem hún lagði stund á leikritun. Brynhildur var sæmdi heiðursmerki hinnar íslensku fálkaorðu af Guðna Th. Jóhannessyni, forseta Íslands. Riddarakrossinn fékk hún fyrir framlag sitt til íslenskrar leiklistar