Aðalfundur BÍL og spennandi málþing
Aðalfundur BÍL haldinn í Þjóðleikhúskjallaranum 7. febrúar 2015 í Þjóðleikhúskjallaranum kl. 11:00 – 13:30.
Málþing kl 14.00 - Sjálfstæðisbarátta 21. aldarinnar – Þurfum við sérstakt menningarmálaráðuneyti?
Dagskrá aðalfundarins verður sem hér segir:
- Kosning fundarstjóra og fundarritara
- Lögmæti fundarins kannað og staðfest
- Fundargerð síðasta aðalfundar
- Skýrsla forseta um starf BÍL 2014
- Ársreikningar 2014
- Starfsáætlun 2015
- Önnur mál
Ekki liggja neinar tillögur að lagabreytingum fyrir fundinum og þar sem bæði forseti og skoðunarmenn reikninga voru kosnir á aðalfundi 2014 til tveggja ára, fara slíkar kosningar ekki fram. Samkvæmt 10. gr. laga BÍL þarf að senda veigamiklar tillögur, sem bera á undir atkvæði á fundinum, út með dagskrá fundarins. Engar slíkar tillögur hafa borist stjórn og því ekki gert ráð fyrir dagskrárliðnum „ályktanir“. Undir 6. dagskrárlið „Starfsáætlun 2015“ leggur stjórn fram tillögu að sóknaráætlun skapandi greina, sem fylgir með fundarboði þessu og verður dreift ásamt starfsáætlun í fundargögnum.
Þegar fundinum lýkur verður borin fram hádegishressing og kl. 14:00 hefst málþing þar sem fjallað verður um stöðu lista og menningar í stjórnkerfinu og afstöðu stjórnvalda til atvinnustarfsemi sem byggir á framlagi listafólks og hönnuða. Yfirskrift málþingsins er Sjálfstæðisbarátta 21. aldarinnar – Þurfum við sérstakt menningarmálaráðuneyti? Illugi Gunnarsson mennta- og menningarmálaráðherra verður gestur málþingsins og tekur þátt í umræðum ásamt frummælendum. Málþinginu lýkur kl. 16:00 með móttöku í boði BÍL. Málþingið er öllum opið og verður sérstök tilkynning send formönnum aðildarfélaganna til dreifingar á félagsmenn.
Minnt er á að auk stjórnarmanns getur hvert aðildarfélag tilnefnt fjóra fulltrúa til setu á aðalfundinum með atkvæðisrétt, þannig að hvert aðildarfélag hefur fimm atkvæði á fundinum. Sambandsfélag getur að auki tilnefnt einn fulltrúa fyrir hvert sjálfstætt starfandi félag innan sambandsins. Allir félagsmenn aðildarfélaganna eiga rétt til setu á fundinum með málfrelsi og tillögurétt. Formenn eru minntir á að senda inn þátttökulista í síðasta lagi viku fyrir aðalfund, þ.e. 1. febrúar nk.