Kæri heiðursfélagi í FÍL, Vigdís Finnbogadóttir
stjórn Félags íslenskra leikara óskar þér innilega til hamingju með 90 ára afmælið og þakkar fyrir ómetanleg störf þín í þágu íslenskrar tungu, umhverfismála og jafnréttismála.
Þrefalt húrra fyrir Vigdísi!
VIGDÍS FINNBOGADÓTTIR
Fjórði forseti lýðveldisins, Vigdís Finnbogadóttir, er fædd 15. apríl 1930.
Vigdís var kjörin forseti 29. júní 1980, endurkjörin án atkvæðagreiðslu 1984, endurkjörin í kosningum 1988, aftur án atkvæðagreiðslu 1992 og lét af embætti 1996.
Vigdís varð stúdent árið 1949, stundaði nám í frönsku og frönskum bókmenntum í Grenoble og við Sorbonne-háskóla í París 1949-1953. Hún nam leiklistarsögu við Kaupmannahafnarháskóla 1957-1958, tók BA-próf í frönsku frá Háskóla Íslands og próf í uppeldis- og kennslufræðum 1968. Vigdís er heiðursdoktor og heiðursprófessor við marga háskóla og stofnanir víðs vegar um heiminn.
Hún var blaðafulltrúi Þjóðleikhússins 1954-1957 og aftur 1961-1964, leiðsögumaður á sumrin um árabil, kennari við Menntaskólann í Reykjavík 1962-1967 og við Menntaskólann við Hamrahlíð 1967-1972. Hún kenndi um skeið við Háskóla Íslands og var leikhússtjóri Leikfélags Reykjavíkur 1972-1980. Vigdís Finnbogadóttir var fyrsta konan í heiminum sem kjörin var forseti í þjóðaratkvæðagreiðslu.